Erlent

Hafna for­sendum til­gátu um leka úr veiru­stofnun Wu­han

Kjartan Kjartansson skrifar
Kínverjar hafa ekki verið samvinnuþýðir við rannsókn á uppruna kórónuveirufaraldursins. Það hefur skapað tómarúm fyrir ýmsar tilgátur eins og að veiran hafi borist fyrir slysni eða vísvitandi frá Veirufræðistofnuninni í Wuhan.
Kínverjar hafa ekki verið samvinnuþýðir við rannsókn á uppruna kórónuveirufaraldursins. Það hefur skapað tómarúm fyrir ýmsar tilgátur eins og að veiran hafi borist fyrir slysni eða vísvitandi frá Veirufræðistofnuninni í Wuhan. Vísir/EPA

Ekkert bendir til þess að nýtt afbrigði kórónuveirunnar hafi verið rannsakað í Wuhan eða að slys hafi komið upp á rannsóknastofu þar áður en heimsfaraldur blossaði upp, að mati bandarísku leyniþjónustunnar. Skiptar skoðanir eru enn innan bandarísku leyniþjónustunnar um uppruna faraldursins.

Þrátt fyrir að vísindamenn telji að SARS-CoV-2, nýtt afbrigði kórónuveiru, hafi fyrst borist í menn á markaði með lifandi dýr í Wuhan í Kína árið 2019 hafa háværar raddir ekki þagnað um að veiran hafi í raun borist frá Veirurannsóknastofnun Wuhan, annað hvort fyrir slysni eða vísvitandi. 

Fylgismenn þeirrar tilgátu vísa til óbeinna vísbendinga, þar á meðal um veikindi vísindamanna við stofnunina um það leyti sem veiran greindist fyrst í Kína. Kínversk stjórnvöld hafa blásið í glæður tilraunastofulekatilgátunnar með því að neita erlendum sérfræðingum um aðgang að upplýsingum um uppruna veirunnar, þar á meðal hvaða veirur voru rannsakaðar í stofnuninni í Wuhan.

Deilurnar um uppruna veirunnar hafa orðið að hápólitísku máli í Bandaríkjunum þar sem repúblikanar aðhyllast margir þá tilgátu að veiran hafi sloppið af tilraunastofu. Þingnefndir sem repúblikanar stýra rannsaka nú ásakanir þeirra um að Bandaríkjastjórn hafi átt þátt í faraldrinum með því að styrkja rannsóknir á kórónaveirum í Wuhan.

Ekkert sem bendir til slyss eða forvera veirunnar

Skýrsla skrifstofu forstöðumanns bandarísku leyniþjónustunnar (ODNI) sem var birt á föstudag rennir ekki stoðum undir tilagátuna um leka frá tilraunastofu og hrekur sumar forsendur hennar. Hún byggir á þeim upplýsingum sem sautján leyniþjónustustofnanir Bandaríkjanna hafa viðað að sér um uppruna veirunnar.

Veirufræðistofnun Wuhan vann með ýmis konar veirur, þar á meðal kórónuveirur, stundum í samstarfi við kínverska herinn. Enginn þeirra gat þó verið forveri SARS-CoV-2, að mati bandarísku leyniþjónustunnar. Kínverska stofnunin hafi fyrst fengið sýni af veirunni seint í desember 2019, eftir að dularfull öndunarfærasýking greindist fyrst í mönnum, að því er segir í frétt Washington Post um skýrsluna.

Þó að sumum öryggisráðstöfunum hafi verið ábótavant á rannsóknastofunni er leyniþjónustunni ekki kunnugt um neitt óhapp þar sem tengdist starfsmönnum sem gæti hafa komið kórónuveirufaraldrinum af stað.

Sprautur með bóluefni gegn Covid-19. Veiran barst fyrst í menn í Wuhan í Kína undir lok árs 2019 en dreifði sér svo um allan heim. Milljónir manna létust í faraldrinum.AP/Mark J. Terrill

Vísindalegu vísbendingarnar „skýrar“

Bandaríska leyniþjónustan fann heldur engin tengsl á milli þriggja starfsmanna veirufræðistofnunarinnar sem veiktust af öndunarfærasjúkdómum í nóvember árið 2019 við upphaf faraldursins. Staðfest sé að einhverjir þeirra hafi greinst með aðra sjúkdóma.

„Við höfum engar vísbendingar um að nokkur þessara rannsakenda hafi verið lagðir inn á sjúkrahús með einkenni sem passa við Covid-19,“ segir í skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar.

Veikindi fólksins hvorki styðji né hreki hvora tilgátuna um uppruna faraldursins um sig.

Athygli vakti fyrr á þessu ári þegar orkumálastofnun Bandaríkjanna virtist leggja meiri trúnað á tilgátuna um leka af tilraunastofu en aðrar bandarískar stofnanir. Vissa stofnunarinnar fyrir því áliti var þó lág. 

Í skýrslu forstöðumanns leyniþjónustunnar nú segir að skiptar skoðanir séu á uppruna faraldursins innan bandaríska leyniþjónustusamfélagsins. Fjórar stofnanir telji veiruna hafa borist úr dýrum í menn en tvær telji veirunar komna af tilraunastofu. Leyniþjónustan CIA og fleiri stofnanir hafa ekki tekið afstöðu, að sögn AP-fréttastofunnar.

Repúblikanar sem rannsaka uppruna faraldursins fögnuðu birtingu skýrslunnar en sögðu að rannsaka yrði málið ítarlegar.

Angela Rasmussen, veirufræðingur við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum sem hefur verið gagnrýnin á tilraunastofutilgátuna, segir ástæðuna fyrir því að leyniþjónustuskýrslan varpaði ekki nýju ljósi á upptök faraldursins þá að það hafi frá upphafi verið vísindalegt álitamál frekar en leyniþjónustumál.

„Og vísindalegu sönnunargögnin ERU skýr,“ tísti hún þegar skýrslan var birt. Vísaði hún í rannsókn sem birtist í vísindaritinu Scince í fyrra um að veiran hefði borist í menn úr dýrum á Huanan-sjávaréttamarkaðinum í Wuhan.


Tengdar fréttir

Uppruni Covid: Spjótin beinast að marðarhundum en mikilvæg gögn hurfu

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) gagnrýndi kínverska embættismenn í gær fyrir að hylma yfir rannsóknir sem gætu varpað ljósi á uppruna Covid-19. Forsvarsmenn WHO spurðu af hverju gögn sem birtust á netinu í janúar og hurfu aftur þegar vísindamenn fóru að spyrjast fyrir um þau, voru ekki birt strax fyrir þremur árum og af hverju þau voru fjarlægð aftur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×