Innlent

Með veika móður og ein­hverfa dóttur en fær ekki hæli

Bjarki Sigurðsson skrifar
Mariangel Garcia hefur dvalið á Íslandi í átta mánuði.
Mariangel Garcia hefur dvalið á Íslandi í átta mánuði. Vísir/Dúi

Umsókn venesúelskrar konu og einhverfrar dóttur hennar um hæli hér á landi var nýlega hafnað. Hún segir ástandið í heimalandinu mun verra en fólk hér á landi átti sig á. Lágmarksmánaðarlaun þar samsvara fjórum íslenskum krónum í tímakaup.

Mariangel kemur frá Venesúela en hún flúði til Íslands fyrir átta mánuðum síðan vegna ástandsins þar í landi. Hún kom hingað með dóttur sinni sem er einhverf og móður sinni sem þjáist að lungnasjúkdómi. Umsókn hennar um hæli hefur þó verið hafnað og verður henni því að öllum líkindum vísað úr landi á næstunni.

Hún segir ástandið í Venesúela vera mun verra en fólk geri sér grein fyrir. Hún til að mynda átti þar lítið fyrirtæki en þurfti að loka því eftir að henni fóru að berast líflátshótanir.

„Ég átti verslun, litla verslun sem seldi helstu nauðsynjar. Þeir fjárkúguðu mig og ég gat ekki tilkynnt það til lögreglunnar af því þessir sömu lögregluþjónar eru þeir sem hvetja til fjárkúgunarinnar,“ segir Mariangel.

Mariangel starfar sem sjálfboðaliði í Fjölskylduhjálp í Reykjanesbæ en er menntuð sem hjúkrunarfræðingur. Hún segir að það yrði erfitt fyrir hana að sjá um móður sína yrðu þær sendar aftur til Venesúela en lágmarkslaun þar á mánuði samsvara um sex hundruð og fimmtíu íslenskum krónum. Vinni maður þar í fjörutíu tíma á viku yrði tímakaupið um fjórar krónur.

Mariangel hefur eignast marga vini hér á landi. Vísir/Dúi

„Launin í Venesúela eru mjög lág, lífsskilyrðin í Venesúela eru mjög slæm,“ segir Mariangel.

Hún biðlar til stjórnvalda um að samþykkja umsókn hennar en hún hefur þegar áfrýjað höfnuninni.

„Ég, líkt og margir aðrir Venesúelamenn, er búin að vera meira en átta mánuði hér á landi og við höfum reynt að aðlagast. Ég vil ekki vera byrði fyrir þetta land. Ég bið bara um tækifæri til að gefa móður minni og dóttur gott líf,“ segir Mariangel.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×