Innlent

Dómar í salt­dreifara­málinu mildaðir um tvö ár

Árni Sæberg skrifar
Ólafur Ágúst þegar hann mætti í dómsal í héraði auk annarra sakborninga.
Ólafur Ágúst þegar hann mætti í dómsal í héraði auk annarra sakborninga. Vísir

Dómar þeirra Halldórs Margeirs Ólafssonar og Ólafs Ágústs Hraundal fyrir hlut þeirra í saltdreifaramálinu svokallaða voru mildaðir um tvö ár í Landsrétti í dag. Í héraði voru þeir dæmdir til þyngstu mögulegu refsingar, tólf ára fangelsisvistar. Aðrir dómar í málinu voru einnig mildaðir um tvö ár og einn var skilorðsbundinn.

Guðlaugur Agnar Guðmundsson og Guðjón Sigurðsson hlutu átta ára dóma en höfðu í héraði hlotið tíu ára dómar. Geir Elí Bjarnason var dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraði en hlaut átján mánaða skilorðsbundinn dóm í dag.

Dómurinn hefur ekki enn verið birtur en það er Ríkisútvarpið sem greinir frá þessu.

Málið varðaði annars vegar innflutning mikils magns amfetamínbasa, sem Halldór, Guðlaugur og Guðjón voru ákærðir fyrir, og hins vegar umfangsmikla kannabisræktun á sveitabænum Hjallanesi við Hellu, sem þremenningarnir auk Ólafs Ágústs voru ákærðir fyrir.

Fimmti maðurinn, Geir Elí, var sakaður var um að hafa séð um fræðilega hlið kannabisræktunarinnar.

Krafðist þyngingar

Saksóknari í málinu hafði farið fram á það að refsingar mannanna yrðu þyngdar í Landsrétti. Meðal málsástæðna var að Guðlaugur Agnar, sem dæmdur var í tíu ára fangelsi, hafi neitað að tjá sig við lögreglu og vísað var til sakarferils hans sem nær til ársins 2003. Þáttur Guðjóns, sem einnig hlaut tíu ára fangelsi, hafi verið umfangsmeiri en hann hafi haldið fram. Hann hafi verið viðstaddur fram­leiðslu efn­anna og fundið heppi­leg­an stað til að geyma þau á jörð sinni í Hjalla­nesi.


Tengdar fréttir

Dómar í salt­dreifara­málinu þyngstu dómar sem fallið hafa í fík­niefna­máli

Þyngstu dómar sem fallið hafa í fíkniefnamáli hér á landi féllu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Það voru tveir sakborningar í Saltdreifaramálinu svokallaða sem hlutu dómana, sem hljóða upp á tólf ára fangelsi. Þrír aðrir voru dæmdir í fangelsi og verjendur hafa þegar ákveðið að áfrýja dómnum.

Þungir dómar í salt­dreifara­máli

Sakborningar í Saltdreifaramálinu svokallaða fengu þyngstu mögulegu refsingu í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar dómur í málinu var kveðinn upp í dag. Tveir hlutu tólf ára fangelsi sem er þyngsti dómur sem fallið hefur í fíkniefnamáli hér á landi. Refsiramminn var því verið fullnýttur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×