Erlent

Náðu mynd af Sveins­dóttur á Merkúríusi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Júlíana Sveinsdóttir, myndlistarkona, lifir áfram á Merkúríusi þar sem má finna gíg sem heitir í höfuðið á henni.
Júlíana Sveinsdóttir, myndlistarkona, lifir áfram á Merkúríusi þar sem má finna gíg sem heitir í höfuðið á henni. Samsett/Heimaslóð/ESA

Sjaldséð mynd náðist af gígnum Sveinsdóttur þegar gervihnötturinn BepiColombo tók mynd af Merkúríusi í þriðju ferð sinni í kringum plánetuna.

Gígurinn Sveinsdóttir er 220 kílómetrar að þvermáli en hann var nefndur í höfuðið á listakonunni Júlíönu Sveinsdóttur, einni fyrstu myndlistakonu Íslendinga, árið 2008.

Auk Sveinsdóttur eru þrír aðrir gígar á Merkúríusi nefndir í höfuðið á íslenskum listamönnum: Snorri í höfuðið á Snorra Sturlusyni, Tryggvadóttir í höfuðið á myndlistarkonunni Nínu Tryggvadóttur og Laxness.

Á myndinni sem Bepi Colombo tók má einnig sjá gígana Rembrandt sem heitir í höfðuð í hollenska málaranum, Lange sem heitir í höfuðið ljósmyndaranum Dorothy Lange, Eminescu sem heitir í höfuðið á rúmenska skáldinu Mihai Eminescu og hinum nýmyndaða Manley sem heitir í höfuðið á myndhöggvaranum Ednu Manley.

Einkennandi landslagsverk

Júlíana Sveinsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum árið 1889 og fékk snemma áhuga á myndlist. Hún sótti kennslustundir hjá myndlistarmanninum Þórarni B. Þorlákssyni áður en hún hóf nám við Hinn konunglega danska listaskóla og aðra listaskóla í Kaupmannahöfn. 

Hún settist síðan að í Danmörku en ferðaðist á sumrin til Íslands þar sem hún sótti innblástur í íslenska náttúru. Hún lést 17. apríl 1966 í Danmörku.

Júlíana var þekkt fyrir landslags- og kyrralífsmyndir sínar en var einnig einn fremst listvefari Norðurlanda á sínum tíma.


Tengdar fréttir

Gígur á Merkúríusi nefndur Laxness

Örnefnanefnd Alþjóðasambands stjarnfræðinga samþykkti í gær tillögu vísindamanna sem starfa við MESSENGER leiðangur NASA, að nefna gíg á Merkúríusi, Laxness, eftir íslenska rithöfundinum Halldóri Kiljan Laxness. Þetta kemur fram á Stjörnufræðivefnum.

Tvær hliðar á einstakri listakonu

Í dag verða opnaðar á Kjarvalsstöðum tvær sýningar á verkum Júlíönu Sveinsdóttur. Á sýningunni Tvær sterkar má sjá málaralist Júlíönu og færeysku listakonunnar Ruth Smith en á sýningunni Lóðrétt/Lárétt er að finna vefnaðarlist Júlíönu og þýsku listakonunnar Anni Albers.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×