Innlent

Þverganga Merkúríuss sjáanleg þar sem veður leyfir

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd sem Sævar Helgi Bragason tók af þvergöngu Merkúríuss í maí árið 2016.
Mynd sem Sævar Helgi Bragason tók af þvergöngu Merkúríuss í maí árið 2016. Sævar Helgi Bragason
Reikistjarnan Merkúríus gengur fyrir sólina frá jörðu séð í dag og verður þvergangan sjáanleg með sjónauka frá Íslandi þar sem veður leyfir. Næsta þverganga af þessu tagi verður ekki fyrr en eftir þrettán ár.

Merkúríus færist fyrst inn á skífu sólarinnar klukkan 12:35 að íslenskum tíma og fer út af henni aftur klukkan 18:04. Hægt er að fylgjast með þvergöngunni með sólarsjónauka þar sem sést til sólar og veður leyfir. Til þess að greina reiki­stjörn­una þegar hún geng­ur fyr­ir sól­ina þarf stjörnu­sjón­auka með helst um fimm­tíufalda stækk­un. Al­ger­lega nauðsyn­legt er að nota sól­arsí­ur til að forðast augnskaða og horfa aldrei beint í sól­ina.

Nokkuð þungbúið er þó yfir landinu í dag og því verða aðstæður tæplega hentugar til að fylgjast með þvergöngunni. Síðast gekk Merkúríus fyrir sólina í maí árið 2016 en sú næsta verður árið 2032.

Merkúríus er innsta og jafnframt minnsta reikistjarnan í sólkerfinu okkar. Bergreikistjarnan er tæpir 4.900 kílómetrar að þvermáli, um 38% af þvermáli jarðar. Yfirborðið er alsett gígum og þykir helst minna á tunglið okkar. Evrópska geimfarið Bepi Colombo er væntanlegt til Merkúríusar í desember árið 2025 en því var skotið á loft í október í fyrra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×