De Gea skrifaði undir fjögurra ára samning við United 2019 og er launahæsti leikmaður félagsins með 375.000 pund í laun á viku. Samingaviðræður um nýjan samning hafa verið í gangi en talið er að United vilji lækka laun de Gea í 200.000 pund á viku.
Það væri vissulega töluverð launalækkun fyrir de Gea, en samt engin lúsarlaun. Tilboð United í Pickford er sagt fela í sér þessi sömu laun, þ.e. 200.000 pund á viku, sem myndi tvöfalda þá upphæð sem hann þénar nú hjá Everton.
Everton er með hæsta launakostnað allra liða í deildinni fyrir utan topp sex, en liðið bjargaði sér frá falli í síðustu umferð deildarinnar og stjórnendur liðsins horfa eflaust hýru auga til þess að lækka launakostnað liðsins.
De Gea verður eins og áður sagði samningslaus 1. júlí en hefur enn sem komið er ekki verið sagður formlega á förum frá United þar sem nýr samningur er á borðinu. Hann hefur fengið sinn skerf af gagnrýni, bæði frá aðdáendum liðsins og stjóra þess, Eric ten Hag, en það verður ekki af honum tekið að enginn hélt oftar hreinu en hann í deildinni í vetur, eða 17 sinnum, og hlaut hann gullhanskann að launum.