Erlent

Segist ekki vera á leiðinni til NATO og vill Stol­ten­berg á­fram

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen hefur gegnt embætti forsætisráðherra Danmerkur frá árinu 2019. Síðustu mánuði hefur hún verið orðuð við embætti framkvæmdastjóra NATO.
Mette Frederiksen hefur gegnt embætti forsætisráðherra Danmerkur frá árinu 2019. Síðustu mánuði hefur hún verið orðuð við embætti framkvæmdastjóra NATO. EPA

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segist ekki vera við það að taka við embætti framkvæmdastjóra NATO. Hún segir það vera „góða lausn“ að Jens Stoltenberg verði beðinn um framlengja stjórnartíð sína um eitt ár.

Skipunartími Stoltenbergs rennur síðar á þessu ári og hefur verið rætt um að næsti framkvæmdastjóri verði kynntur í kjölfar leiðtogafundar NATO í litháísku höfuðborginni Vilníus í næsta mánuði. Mette Frederiksen hefur þar oft verið nefnd til sögunnar.

Frederiksen segist í samtali við danska ríkisútvarpið styðja þá hugmynd að fundin verði leið til að framlengja skipunartíma hins norska Stoltenbergs. „Algerlega. Ég meina, Stoltenberg hefur verið einfaldlega verið frábær, í forystu NATO í mörg ár og einnig á dramatískum tímum,“ segir Frederiksen.

Forsætisráðherrann danski segir að vestrænt samstarf sé sterkara en það hafi verið um árabil og einnig að NATO sé þýðingarmeira en það hafi verið um árabil. Það sé að stórum hluta Stoltenberg að þakka. „Svo ef við gætum fengið hann til að halda áfram, þá held ég að það sé mjög góð lausn.“

Aðspurð um hvort hún hafi sjálf áhuga á stöðu framkvæmdastjóra NATO segir Frederiksen: „Ég er mjög ánægð í mínu starfi og ég hef hugsað mér að halda því áfram. Svo nei, ég er ekki á leiðinni til NATO.“

Jens Stoltenberg tók við stöðu framkvæmdastjóra NATO árið 2014 og stóð til að hann myndi láta af embætti á síðasta ári. Hann hafði þá verið skipaður seðlabankastjóri Noregs, en eftir innrás Rússa í Úkraínu var hann fenginn til að framlengja stjórnartíð sína sem framkvæmdastjóri NATO til októbermánaðar 2023.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×