Erlent

Söngvari Ramm­stein gæti átt fimm ára fangelsi yfir höfði sér

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Saksóknari í Berlín hefur opnað rannsókn á hendur Lindemann.
Saksóknari í Berlín hefur opnað rannsókn á hendur Lindemann. Getty

Saksóknari í Berlín hefur opnað rannsókn á hendur Till Lindemann, söngvara Rammstein, fyrir kynferðisbrot. Tugir kvenna hafa stigið fram á undanförnum vikum og sakað Lindemann og starfslið hans um kerfisbundna tælingu og byrlun.

Samkvæmt þýska blaðinu Tagesspiegel er Lindemann grunaður um að brjóta 177 grein þýskra hegningarlaga. Þar segir að hver sem neyðir aðra manneskju til kynferðislegra athafna með sjálfum sér eða örðum geti átt yfir sér fangelsisdóm allt að fimm árum.

Rannsóknin hófst vegna fjölmiðlaumfjöllunar um mál Lindemann sem og umfjöllunar á samfélagsmiðlum. Á Reddit síðu þungarrokkshljómsveitarinnar hafa tugir kvenna stigið fram lýst framferði Lindemann og virðast lýsingarnar margar vera keimlíkar eða alveg eins.

Málin hrannast upp

Eins og Vísir hefur áður greint frá var það írsk kona að nafni Shelby Lynn sem steig fram með fyrstu ásakanirnar. En hún lýsti grunsemdum um byrlun á tónleikum Rammstein í Vilníu, höfuðborg Litháen í maí síðastliðnum. Í kjölfar þess stigu fleiri fram.

Rammstein hafa gefið út nokkrar yfirlýsingar um málið og hafnað ásökununum. Engu að síður hefur þrýstingurinn magnast. Meðal annars sleit bókaútgefandinn KiWi útgáfusamningi sínum við Lindemann, en forlagið hafði um áraraðir gefið út ljóðabækur hans.

Til umræðu á þinginu

Nú hefur mál Lindemann ratað alla leið til þýska þingsins. Sebastian Schlusselburg, þingmaður Vinstrisins, lagði nýlega fram fyrirspurn um hvar mál Lindemann væri statt hjá saksóknara.

Saksóknari hefur hins vegar ekki viljað greina frekar frá rannsókninni.

„Það er mikilvægt að þær upplýsingar sem yfirvöld veita njóti trausts því það er mjög hætt við því að þeir sem um ræðir verði fyrir fordómum í samfélaginu vegna þeirra,“ sagði talsmaður saksóknaraembættisins.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×