Fótbolti

Belling­ham orðinn leik­­maður Real

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orðinn leikmaður Real Madríd.
Orðinn leikmaður Real Madríd. Richard Heathcote/Getty Images

Knattspyrnumaðurinn Jude Bellingham er orðinn leikmaður Real Madríd. Gæti hann orðið dýrasti Englendingur sögunnar. 

Spænska stórveldið hefur fest kaup á enska ungstirninu fyrir 88,5 milljónir punda [15,5 milljarða íslenskra króna]. Vitað var að Bellingham væri á förum frá Borussia Dortmund í sumar og undanfarið hefur allt bent til þess að Real Madríd yrði fyrir valinu. 

Það hefur nú verið staðfest en á samfélagsmiðlum félagsins má sjá tilvitnun í lagið Hey Jude með Bítlunum áður en Bellingham er boðinn velkominn.

Heildarverð leikmannsins gæti endað í 115 milljónum punda [20 milljörðum íslenskra króna] fari svo að Bellingham uppfylli öll árangurstengd ákvæði í samningi sínum við Real. Það myndi gera hann að dýrasti Englendingi sögunnar og næstdýrasta leikmanni Real frá upphafi á eftir Eden Hazard.

Bellingham, sem verður tvítugur síðar í mánuðinum, skrifaði undir sex ára samning á Santiago Bernabéu í Madríd. Hann er fastamaður í enska A-landsliðinu, hefur spilað 24 leiki og skorað eitt mark.

Hann verður sjötti karlmaðurinn frá Englandi til að spila fyrir Real. Hinir fimm eru Lauri Cunningham [1979-84], Steve McManaman [1999-2003], David Beckham [2003-07], Michael Owen [2004-05] og Jonathan Woodgate [2004-07]. 

Þrátt fyrir ungan aldur verður Spánn þriðja landið sem Bellingham spilar í. Ferill hans hófst hjá Birmingham City í ensku B-deildinni. Þaðan lá leiðin til þýska stórliðsins Borussia Dortmund sumarið 2020 og nú til stórveldisins í Madríd. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×