Fótbolti

Berg­huis í bann fyrir að bregðast illa við ras­isma

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Berghuis missir af upphafi næstu leiktíðar.
Berghuis missir af upphafi næstu leiktíðar. PA-EFE/MAURICE VAN STEEN

Steven Berghuis, miðjumaður Ajax í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, mun byrja næsta tímabil í þriggja leikja banni. Hann veittist að stuðningsmanni FC Twente eftir leik liðanna í lokaumferð nýafstaðins tímabils. Gerði hann það þar sem stuðningsmaðurinn var með kynþáttaníð í garð samherja hans.

Ajax endaði síðasta tímabil með 3-1 tapi gegn FC Twente. Þýddi það að liðið endaði í 3. sæti deildarinnar og komst ekki í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn síðan 2009. Eftir leik náðist myndband af Berghuis að slá til stuðningsmanns Twente þegar leikmenn Ajax voru á leið í liðsrútu sína eftir leik.

Ástæðan er sögð vera sú að aðdáandinn hafi verið með kynþáttaníð í garð Brian Brobbey, samherja Berghuis, og því hafi hann brugðist við líkt og hann gerði. Berghuis hefur beðist afsökunar á hegðun sinni: „Ég sé eftir þessu, hefði ekki átt að gera þetta,“ sagði meðal annars í yfir­lýsingu leikmannsins.

Berghuis var þegar á leiðinni í eins leiks bann fyrir að hafa fengið gult spjald í leiknum gegn Twente. Nú hefur hollenska knattspyrnusambandið ákveðið að hann fái tvo leiki til viðbótar fyrir að slá til áhorfandans.

Í frétt BBC um málið kemur ekki fram hvort áhorfandinn sé kominn í lífstíðarbann fyrir að vera með kynþáttaníð í garð Brobbey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×