Innlent

Fáir úti á götu og heims­enda­bragur yfir borginni

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Nanna segir að ástandið hafi verið sérstaklega slæmt á miðvikudaginn.
Nanna segir að ástandið hafi verið sérstaklega slæmt á miðvikudaginn. stöð 2

Íslendingur sem staddur er í New York segir heimsendabrag yfir borginni. Fáir eru á ferli og varla sést til sólar vegna þykks reykmakkar sem hefur legið yfir austurhluta Bandaríkjanna síðustu daga.

Borgin sem aldrei sefur hefur legið í hálfgerðum dvala síðustu daga en appelsínugul slikja hefur hulið borgina þar sem þykkur reykmökkur hefur legið yfir austurhluta Bandaríkjanna vegna gróðurelda í Kanada og ástandið verið verulega slæmt í New York.

„Maður sá ekki sólina“

Nanna Guðrún Sigurðardóttir, starfsmaður Fréttastofunnar er stödd í borginni þar sem hún sækir tónlistarhátíð sem fram fer um helgina. Hún segir mengunina hafa verið rosalega, sérstaklega á miðvikudaginn þegar loftmengun mældist hættuleg og langt yfir heilsuverndarmörkum.

„Það var bara allt gult úti, fátt á götunum og pínu heimsendafílingur yfir borginni. Maður sá ekki sólina og ég hef aldrei séð neitt þessu líkt. Ég hef komið nokkrum sinnum til New York þannig þetta var sérstakt að upplifa þetta.“

Andþyngsli og mengunarlykt

Fólki hefur verið ráðið frá því að vera úti eins og kostur er og hvatt til að bera grímur. Flugi og íþróttaleikjum hefur verið frestað og um tíma var tvísýnt hvort af tónlistarhátíðinni yrði.

Nanna segir að þegar mengunin hafi verið sem mest hafi hún fundið fyrir andþyngslum eftir nokkra klukkustunda útiveru og ertingu í augum og hálsi. Þá hafi mengunarlykt legið yfir borginni.

Töluverð umfjöllun hafi verið um ástandið í bandarískum fjölmiðlum og mengunin á allra vörum.

„Við erum búin að vera með kveikt á sjónvarpinu og allir að fjalla um þetta. Þetta var svo gult og klikkað.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×