Fótbolti

Yfir milljón miðar seldir á HM og stefnir í enn eitt á­horf­enda­metið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, telur að HM kvenna í ár verði það besta frá upphafi.
Gianni Infantino, forseti FIFA, telur að HM kvenna í ár verði það besta frá upphafi. Harold Cunningham - FIFA/FIFA via Getty Images

Það stefnir allt í það að heimsmeistaramót kvenna í knattspyrnu sem fram fer í Ástralíu og Nýja-Sjálandi verði mest sótti íþróttaviðburður kvenna frá upphafi. Nú þegar er búið að selja yfir milljón miða á leiki mótsins.

Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA greindi frá því í gær að yfir milljón miðar væru nú þegar seldir á mótið, en það hefst þann 20. júlí næstkomandi.

Gianni Infantino, forseti FIFA, sagði frá því að seldir miðar væru nákvæmlega 1.032.884 talsins. Það er því nú þegar búið að selja fleiri miða á mótið í ár en seldust á seinasta heimsmeistaramót sem var haldið í Frakklandi árið 2019.

„Konurnar eru framtíðin,“ sagði Infantino eftir að hann tilkynnti um hversu margir miðar væru seldir á mótið.

„Ég vil þakka aðdáendunum fyrir að styðja það sem mun verða besta heimsmeistaramót kvenna frá upphafi. Spennan í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, sem og um heim allan, er að magnast og ég hlakka til að sjá ykkur þar og fylgjast með stjörnum kvennafótboltans skína á heimssviðinu.“

Þá hefur FIFA einnig gefið út að opnunarleikur Ástralíu og Írlands mun færast á Stadium Australia vegna mikillar eftirspurnar eftir miðum. Stadium Australia tekur 83.500 manns í sæti og er stærsti völlur mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×