Innlent

Loka sendi­ráðinu í Moskvu og tak­marka um­svif Rússa hér­­lendis

Atli Ísleifsson skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að um leið og aðstæður leyfa verði lögð áhersla á að hefja starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu á ný.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að um leið og aðstæður leyfa verði lögð áhersla á að hefja starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu á ný. Vísir/Vilhelm

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að leggja niður starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu frá 1. ágúst næstkomandi. Þá hefur sendiherra Rússlands hér á landi verið tjáð að gert sé ráð fyrir að Rússland minnki fyrirsvar sitt þannig að sendiherra stýri ekki lengur sendiráði Rússlands í Reykjavík. Sömuleiðis hefur Rússlandi verið gert að lágmarka starfsemi sendiráðsins á Íslandi til samræmis við þessa ákvörðun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Þar segir að ákvörðun um að leggja niður starfsemi sendiráðsins sé tekin í ljósi þess að það samræmist ekki forgangsröðun í utanríkisþjónustu Íslands að starfrækja sendiskrifstofu í Moskvu við núverandi aðstæður. 

Mikil spenna hefur verið í samskiptum Rússlands og vesturlanda frá upphafi innrásar Rússlands í Úkraínu í febrúar 2022. Samkvæmt svörum frá utanríkisráðuneytinu hafa sjö verið starfandi í íslenska sendiráðinu í Moskvu - tveir útsendir starfsmenn ráðuneytisins og fimm staðarráðnir starfsmenn. Í rússneska sendiráðinu hafa um tuttugu verið starfandi samkvæmt heimildum fréttastofu.  

Vilja opna á ný um leið og aðstæður leyfa

Í tilkynningunni segir að Ísland starfræki nú átján sendiráð í höfuðborgum erlendra ríkja, einkum í ríkjum þar sem efnahagsleg, stjórnmálaleg og menningarleg tengsl séu mikil eða um samstarfsríki í þróunarsamvinnu er að ræða.

Mik­haíl V. Noskov er sendiherra Rússlands hér á landi. Vísir/Arnar

„Öll samskipti við Rússland eru í lágmarki hvort sem litið er til viðskiptalegra, menningarlegra eða stjórnmálalegra tengsla. Forsendur fyrir starfsemi sendiráðs í Moskvu eru því gjörbreyttar.

Ísland hefur rekið sendiráð í Moskvu frá árinu 1944 að undanskildum árunum 1951-1953 þegar viðskipti lágu niðri milli ríkjanna. Sovétríkin höfðu ekki sendiherra á Íslandi á árunum 1948-1954.

Ákvörðun um að leggja niður starfsemi sendiráðsins felur ekki í sér slit á stjórnmálasambandi ríkjanna. Um leið og aðstæður leyfa verður lögð áhersla á að hefja starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu á ný,“ segir í tilkynningunni. 

Árni Þór Sigurðsson er núverandi sendiherra Íslands í Moskvu en hann mun nú flytjast til sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.