West Ham vann leikinn, 1-2, en Jarrod Bowen skoraði sigurmark Hamranna á lokamínútunni. Þetta er fyrsti titilinn sem West Ham vinnur síðan liðið varð bikarmeistari 1980.
Ýmislegt gekk á í gær, innan vallar sem utan. Luka Jovic, framherji Fiorentina, nefbrotnaði og Cristiano Biraghi, fyrirliði liðsins, fékk gat á höfuðið eftir að stuðningsmenn West Ham köstuðu glösum í hann. Forseti Fiorentina, Rocco Commisso, vandaði West Ham ekki kveðjurnar í leikslok.
„Hvað ætti ég að segja? Ég bjóst við sigri,“ sagði Commisso ósáttur við heimkomuna til Flórens.
„Það voru atvik þar sem dómarinn átti að gera betur. Jovic nefbrotnaði. Ég talaði við forseta ensku úrvalsdeildarinnar og sagði að þeir væru allir skepnur vegna þess hvernig þeir komu fram við leikmennina okkar. Tapið var ekki sanngjarnt. Við hefðum getað unnið 3-0. Ég finn til með stuðningsmönnunum sem áttu meira skilið.“
Tapið í gær var annað tap Fiorentina í úrslitaleik á nokkrum dögum en 24. maí laut liðið í lægra haldi fyrir Inter, 2-1, í úrslitaleik ítölsku bikarkeppninnar.