Fótbolti

Þrjá­tíu hand­teknir eftir átök á milli stuðnings­manna Fiorentina og West Ham

Smári Jökull Jónsson skrifar
Stuðningsmenn West Ham og Fiorentina hafa fjölmennt til Prag en liðin mætast í úrslitaleik Sambandsdeildarinnar í kvöld.
Stuðningsmenn West Ham og Fiorentina hafa fjölmennt til Prag en liðin mætast í úrslitaleik Sambandsdeildarinnar í kvöld. Vísir/Getty

Lögreglan í Prag hefur handtekið yfir þrjátíu manns eftir að átök brutust út fyrir úrslitaleik Fiorentina og West Ham í Sambandsdeildinni. 

Úrslitaleikur West Ham og Fiorentina í Sambandsdeildinni fer fram í Prag í kvöld. Í dag brutust hins vegar út átök á milli stuðningsmanna liðanna og hefur lögreglan í borginni handtekið yfir þrjátíu manns í kjölfarið.

Talið er að stuðningsmenn Fiorentina hafi ráðist að stuðningsmönnum West Ham þar sem þeir sátu á veitingastað í miðborg Prag. Þegar fleiri stuðningsmenn West Ham bar að kom óeirðalögregla á svæðið til að halda stuðningsmannahópunum frá hvor öðrum.

Tékkneska lögreglan hefur staðfest að þrír slösuðust í átökunum og að ráðist hafi verið á einn lögreglumann.

„Ítalskir stuðningsmenn réðust að stuðningsmönnum West Ham á bar við Rytirska stræti og slösuðu þrjá. Við höfum handtekið sextán manns og erum að rannsaka málið enn frekar,“ sagði í yfirlýsingu lögreglunnar skömmu eftir atvikið.

Um 20.000 stuðningsmenn West Ham eru staddir í Prag og meirihluti þeirra án miða. 

„Fimm eða tíu ítalskir hlupu yfir götuna, þeir voru með vopn. Þeir réðust að fólki, það var kveikt í flugeldum og það voru glerbrot úti um allt. Tveir eða þrír Englendingar slösuðust,“ sagði aðili sem varð vitni að atvikinu.

Annað vitni segir að hópur stuðningsmanna Fiorentina hafi verið vopnaðir keðjum og öðrum vopnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×