Fótbolti

Hrósar Frey eftir krafta­verkið mikla: „Aðrir hefðu misst klefann“

Aron Guðmundsson skrifar
Sævar Atli fyrir landsliðsæfingu á Laugardalsvelli í gær
Sævar Atli fyrir landsliðsæfingu á Laugardalsvelli í gær Vísir/Sigurjón Ólason

Sæ­var Atli Magnús­son, at­vinnu- og lands­liðs­maður í knatt­spyrnu, hrósar þjálfara sínum hjá Lyng­by, Frey Alexanders­syni há­stert eftir að liðinu tókst að fram­kvæma krafta­verkið mikla og halda sæti sínu í dönsku úr­vals­deildinni. Sæ­vari líður afar vel hjá Lyng­by en fram­ganga hans með liðinu hefur vakið á­huga annarra liða.

Sæ­var Atli er mættur til móts við ís­lenska lands­liðið í fót­bolta sem hóf undir­búning sinn hér heima á dögunum fyrir tvo heima­leiki liðsins í undan­keppni EM 2024 síðar í mánuðinum. Sæ­var á þar mögu­leika á að leika sína fyrstu móts­leiki fyrir lands­liðið.

Sæ­var mætti í góðu skapi í lands­liðs­verk­efnið eftir að hafa upp­lifað gríðar­lega gleði í Dan­mörku á dögunum þegar að Lyng­by tókst að bjarga sér á undra­verðan hátt frá falli í loka­um­ferð dönsku úr­vals­deildarinnar.

„Þetta hafa verið stór­kost­legir dagar, það er ekki hægt að segja annað. Maður er, skiljan­lega, búinn að vera svífa um á bleiki skýi undan­farið. Það að ná þessu krafta­verki eftir svona erfitt tíma­bil er bara draumi líkast,“ segir Sæ­var Atli í sam­tali við Vísi.

Sævar Atli á gleðistundu þegar Lyngby hafði tryggt sæti sitt í dönsku úrvalsdeildinniVísir/Getty

Trúði ekki alltaf 

Sæ­var segist aldrei hafa dottið í eins mikið adrena­lín kast eins og þegar að loka flautið gall í loka­um­ferðinni og Lyng­by hafði tryggt sæti sitt í deildinni.

„Ég hljóp um allan völlinn að fagna með stuðnings­mönnum, gleymdi mér í stað og stund, varð móður og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var léttir, gleði að sjálf­sögðu, en aðal­lega mikill léttir að ná þessu því við vorum búnir að horfa í þetta í langan tíma.“

Ís­lendingurinn knái var hins vegar ekki alltaf viss um að Lyng­by myndi takast að halda sæti sínu í deildinni.

„Ég trúði því ekki allan tímann að við myndum ná þessu. Ég get ekki gert eins og Freyr og sagst hafa gert það en að ná þessu loksins var stór­kost­legt.“

Freyr Alexandersson ogSævar Atli á góðri stunduMynd/Lyngby

Stórt hrós á Frey

Freyr Alexanders­son er þjálfari liðsins og segja má að hann hafi verið sá eini sem aldrei missti trúna á því að Lyng­by gæti haldið sæti sínu.

„Á fyrsta liðs­fundinum eftir jóla­frí mætir Freyr inn í klefann og segir við okkur: „Strákar, það eru svona 60 til 70 prósent líkur á því að við getum haldið okkur í þessari deild.“

Freyr hafi í kjöl­farið lagt fram rök fyrir máli sínu, stað­reyndir og gögn.

„Svo heldur hann á­fram að hamra á þessu, þrátt fyrir alla þessa tap­leiki sem við áttum eftir jóla­fríið. Segir okkur að við séum að fara ná þessu mark­miði að halda okkur uppi.“

Freyr Alxeandersson í loftinu eftir að hafa stýrt Lyngby til áframhaldandi veru í dönsku úrvalsdeildinni.Getty/Jan Christensen

Freyr hefur, að mati Sæ­vars, nálgast þetta stóra verk­efni með Lyng­by of­boðs­lega vel.

„Það eru ekki margir þjálfarar í heiminum, held ég, sem geta haldið klefanum í svona að­stæðum líkt og Freyr gat.“

Ein á­stæðan á bak við það sé sú að Freyr hafi komið á á­kveðnum ís­lenskum kúltúr innan leik­manna­hópsins hjá Lyng­by.

„Að gefast aldrei upp. Bara stórt hrós á hann að missa ekki klefann því ég held að allir aðrir þjálfarar í þessari deild hefðu misst klefann í þessum að­stæðum.“

Liðið alltaf í fyrsta sæti

Freyr hefur sjálfur, í við­tölum eftir að sæti Lyng­by í dönsku úr­vals­deildinni var tryggt, greint frá því að hann hefði á einum tíma­punkti á tíma­bilinu látið Lyng­by losa sig við leik­menn sem hann taldi að hefðu ekki trú á veg­ferðinni sem liðið var á.

Sæ­var Atli segist hafa tekið eftir um­ræddu við­horfi hjá nokkrum af fyrr­verandi leik­mönnum liðsins.

„Þegar að við vorum að vinna leiki, þá voru til að mynda sumir leik­menn sem voru ó­sáttir við það að vera ekki að spila. Hér er um að ræða lið­s­í­þrótt og þetta virkar bara ekki þannig. Freyr tekur eftir öllu svona.

Ég man eftir því á síðasta tíma­bili, þegar að við vorum að vinna fyrstu deildina, þá var hann samt að pæla í þessu. Hann lét þessa menn heyra það. Liðið er alltaf í fyrsta sæti, það skiptir engu máli hver þú ert eða hvað þú hefur gert í for­tíðinni þegar kemur að þessu. Þannig vinnur Freyr og hann er eini þjálfarinn í deildinni sem hefði tekist þetta.“

Stuðningsmenn Lyngby með íslenska fánann í stúkunni.Vísir/Getty

Áhugi frá öðrum liðum

Sæ­var á eitt ár eftir af samningi sínum hjá Lyng­by. Hann elskar fé­lagið og ætlar í samninga­við­ræður við for­ráða­menn þess en þó er aldrei að vita hvað fram­tíðin ber í skauti sér.

„Ég vildi ekki fara inn í samninga­við­ræður á miðju tíma­bili þegar að ég vissi ekki hvað fram­tíðin myndi bera í skauti sér fyrir fé­lagið. Eftir þetta lands­liðs­verk­efni mun ég alveg 100 prósent fara í samninga­við­ræður við Lyng­by, mér líður rosa­lega vel hjá fé­laginu.“

Sævar Atli í leik með LyngbyVísir/Getty

Stefna Lyng­by í leik­manna­málum er þó einnig ofar­lega í huga Sæ­vars á þessari stundu.

„Lyng­by vill selja leik­menn lengra og búa til leik­menn. Þjálfara­t­eymið hjá fé­laginu sem og æfinga­kúltúrinn hefur bætt minn leik alveg rosa­lega mikið undan­farin tvö ár. Ég vil klár­lega vera á­fram hjá Lyng­by en aftur á móti ef maður fær mögu­leikann á ein­hverjum stórum fé­lags­skiptum þá mun maður alltaf skoða það.“

Sæ­var veit af á­huga annarra liða á sínum kröftum.

„Um­boðs­maðurinn minn talaði við mig fyrir mánuði og sagði að það væri til staðar á­hugi frá öðrum liðum á mér en á þeim tíma­punkti vildi ég ekki vita neitt af því. Þá hafði ég bara eitt mark­mið og það var að halda Lyng­by uppi í dönsku úr­vals­deildinni.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.