Fótbolti

PSG hótaði að kvarta undan Chelsea og er nú við það að semja við Ugarte

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Á leið til Parísar.
Á leið til Parísar. Carlos Rodrigues/Getty Images

Frakklandsmeistarar París Saint-Germain hótuðu að senda kvörtun til Knattspyrnusambands Evrópu vegna mögulegra kaupa Chelsea á Manuel Ugarte, miðjumanni Sporting frá Lissabon. Sá er nú við það að skrifa undir fimm ára samning í París.

Frá þessu er greint á The Athletic en þar segir að París hafi á endanum dregið kvörtunina til baka þar sem Chelsea hafi á endanum ákveðið að draga tilboð sitt til baka. Pirringur PSG sneri að því hvernig Chelsea virtist ætla að reyna komast hjá reglum um fjárhagslega háttvísi.

Samkvæmt heimildum miðilsins ætlaði Chelsea að kaupa lítinn hlut í portúgalska félaginu til þess að fá hinn 22 ára gamla Ugarte í sínar raðir. Bæði Chelsea og Sporting neita að það hafi staðið til en samt sem áður ákvað Chelsea að draga sig út úr kapphlaupinu um leikmanninn á sunnudaginn var.

Chelsea ku hafa dregið sig út þar sem launakröfur leikmannsins voru of háar. PSG segist þó ekki vera bjóða honum hærri laun heldur en Chelsea. Þar sem Chelsea dró úr áhuga sínum þá ákvað PSG að senda téð bréf ekki til UEFA.

Hvað sem því liður þá hefur skúbb-blaðamaðurinn Fabrizio Romano staðfest að Ugarte sé í þann mund að skrifa undir fimm ára samning við PSG.

Talið er að PSG borgi í kringum 60 milljónir evra (rúma 9 milljarða íslenskra króna) fyrir leikmanninn sem á að baki 8 A-landsleiki fyrir Úrúgvæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×