Fótbolti

Réðust á átta ára strák með heilakrabbamein og kveiktu í treyju hans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Ajaccio réðust á átta ára stuðningsmann Marseille.
Stuðningsmenn Ajaccio réðust á átta ára stuðningsmann Marseille. vísir/getty

Stuðningsmenn franska úrvalsdeildarliðsins Ajaccio urðu sér til skammar á leik liðsins við Marseille í gær. Þeir réðust á átta ára gamlan stuðningsmann Marseille sem glímir við krabbamein í heila.

Hinn átta ára Kenzo var á leiknum í boði flugfélagsins Air Corsica. En það sem hefði átt að vera draumadagur fyrir drenginn breyttist hins vegar í martröð.

Hluti stuðningsmanna Ajaccio braust inn í stúkuna þar sem Kenzo var með pabba sínum. Samkvæmt frönsku fjölmiðlum réðust bullurnar á pabbann og lömdu strákinn í höfuðið. Ekki nóg með það heldur rifu þeir treyjuna utan af honum og kveiktu í henni. Þá hræktu bullurnar í mat fjölskyldunnar.

Ajaccio fordæmdi árásina harðlega og sagði að framkoma bullanna samræmdist ekki gildum félagsins. Þá sagðist félagið ætla að kæra bullurnar þegar búið væri að finna út hverjar þær væru.

Borgarstjóri Ajaccio, höfuðborgar Korsíku, fordæmdi ennfremur árásina á Kenzo og fjölskyldu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×