James White, 33 ára karlmaður frá Warwickshire, var birt ákæra í gær en myndin af honum í treyjunni var tekin á bikarúrslitaleik Manchester United og Manchester City á laugardag.
White var látinn laus gegn tryggingu en þarf að mæta fyrir dómara þann 19. júní næstkomandi.
Á bakhlið treyjunnar var númerið 97 og textinn „not enough“ en 97 er sá fjöldi stuðningsmanna Liverpool sem létust á leik Liverpool og Nottingham Forest á Hillsborough-vellinum árið 1986. Óháð rannsóknarnefnd úrskurðaði árið 2016 að stuðningsmennirnir hefðu látist vegna fjölda mistaka lögreglu við umsjón leiksins.
„Knattspyrnusambandið fordæmir harðlega athæfi þess einstaklings sem klæddist treyju með tilvísun í Hillsborough harmleikinn í aðdraganda úrslitaleiks FA-bikarsins á Wembley,“ segir í yfirlýsingu enska knattspyrnusambandsins.
A short story. pic.twitter.com/v8qCZibNyX
— Football Tweet (@Football__Tweet) June 3, 2023
„Við fögnum snöggum viðbrögðum lögreglunnar. Sambandið mun ekki líða nokkurs konar hatur sem tengist Hillsborough eða öðrum knattspyrnutengdum harmleikjum á Wembley og mun halda áfram að vinna með yfirvöldum til að tryggja að gripið sé til harða aðgerða.“
Lögreglan sagði í yfirlýsingu í gær að tuttugu og tveir til viðbótar hefðu verið handteknir í sérstakri aðgerð sem beindist að líkamsárásum, átökum, vörslu fíkniefna og drykkjulátum.
Þá bætti lögreglan við að fyrirspurnir hefðu borist vegna atviks skömmu eftir mark Manchester United í leiknum í gær þar sem hlut var kastað inn á völlinn. Engar handtökur hafa verið framkvæmdar en hluturinn virtist hæfa Victor Lindelöf, leikmann United.