Innlent

Fimm bílar eyðilögðust í bruna í Engihjalla

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Eldurinn dreifði hratt úr sér enda stutt á milli bílanna.
Eldurinn dreifði hratt úr sér enda stutt á milli bílanna. Slökkviliðið

Íbúi var fluttur á slysadeild með reykeitrun eftir að það kviknaði í fimm bílum á bílastæði við íbúðablokk í Engihjalla í Kópavogi í nótt.

Í samtali við fulltrúa Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu kom fram að slökkviliðið hafi verið kallað út um hálf þrjú í nótt eftir tilkynningu um að eldur hefði kviknað í bílum í Engihjalla. Einn slökkviliðsbíll var sendur á vettvang og tókst slökkviliðsmönnum að ráða niðurlögum eldsins.

Íbúi í Engihjalla náði þessari mynd af brunanum og reykstróknum sem stóð upp af honum.Aðsent

Talið er að kviknað hafi í einum bíl og þar sem bílarnir stóðu þétt saman á bílastæði hafi eldurinn borist í fjóra bíla til viðbótar. Ekki er enn vitað hvað orsakaði eldsvoðann.

Vegna nálægðar bílanna við blokkina hafi rúður sprungið í íbúðum á fyrstu hæð blokkarinnar. Þrátt fyrir það hafi engan sakað alvarlega en hins vegar var einn íbúi fluttur á bráðadeild með reykeitrun.

Fyrir utan brunann hafði slökkviliðið í nægu að snúast, alls voru 119 boðanir á sjúkrabíla, þar af 49 forgangsverkefni. Dælubílar voru boðaðir í fimmtán útköll, þar á meðal hreinsun eftir umferðarslys og vatnsleka.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.