Enski boltinn

Ederson spilar alltaf í sömu nærbuxum heilt tímabil

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ederson hefur varið mark Manchester City síðan 2017.
Ederson hefur varið mark Manchester City síðan 2017. getty/Michael Regan

Markvörður Englandsmeistara Manchester City, Ederson, er með ansi sérstaka hjátrú sem hann telur að hafi hjálpað sér á ferlinum.

Ederson hefur orðið landsmeistari sjö sinnum á síðustu átta árum, tvisvar með Benfica í Portúgal og fimm sinnum með City á Englandi.

Ederson er með eina hjátrú í tengslum við fótboltann og telur að hún eigi sinn þátt í velgengni hans inni á vellinum.

„Ég er með þá hjátrú að vera í sömu nærbuxunum í öllum leikjum. Það eru alltaf þær sömu. Einar nærbuxur fyrir hvert tímabil,“ sagði Ederson við TNT.

„Þetta er eina hjátrúin sem ég er með. Ég hef verið með hana síðan ég var hjá Benfica. Síðustu átta ár hef ég unnið sjö landstitla svo þetta virkar,“ bætti Brassinn við.

Ederson vonast væntanlega til þess að hjátrúin hjálpi sér að gera frábært tímabil stórkostlegt. City varð Englandsmeistari á dögunum og getur enn unnið þrennuna svokölluðu. Aðeins einu ensku liði hefur tekist það; Manchester United tímabilið 1998-99.

City mætir United í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar á laugardaginn. Viku síðar eigast City og Inter við í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×