Fótbolti

Arnór Sigurðs­son yfir­gefur Norr­köping í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór er dýrkaður og dáður hjá Norrköping.
Arnór er dýrkaður og dáður hjá Norrköping. Norrköping

Landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson mun yfirgefa sænska úrvalsdeildarfélagið Norrköping í sumar þegar lánssamningur hans við félagið rennur út. Þetta staðfesti félagið fyrr í dag.

Arnór gekk aftur í raðir Norrköping á síðasta ári eftir að Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, gaf erlendum leikmönnum í Rússlandi leyfi til að fara á láni eftir að Rússland réðst inn í Úkraínu.

Arnór gekk þá aftur í raðir Norrköping en hann lék þar áður en CSKA festi kaup á honum. Spilaði Skagamaðurinn frábærlega með liðinu undir lok síðasta tímabils og hefur haldið því áfram á yfirstandandi tímabili.

Sem stendur hefur Arnór skorað 9 mörk í 14 leikjum í deild og bikar. Hann hefur tíma til að bæta við þann fjölda þar sem Arnór mun spila tvo leiki til viðbótar fyrir félagið áður en samningur hans rennur út. Fyrr í dag var nefnilega staðfest að leikmaðurinn mun yfirgefa félagið þann 30. júní.

„Allir í liðinu og í kringum það hafa gert árið frábært,“ sagði Arnór í viðtali er staðfest var að hann myndi yfirgefa félagið í sumar.

Samningur Arnórs við CSKA Moskvu rennur ekki út fyrr en 2024 og því verður forvitnilegt að sjá hvert hann fer í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×