Fótbolti

Sjáðu markið: Val­geir með gull­fal­legt mark gegn Helsing­borg

Aron Guðmundsson skrifar
Valgeir Valgeirsson, leikmaður Örebro
Valgeir Valgeirsson, leikmaður Örebro Mynd: Örebro

Valgeir Valgeirsson skoraði eina mark Örebro í 1-1 jafntefli liðsins við Helsingborg í næstefstu deild Svíþjóðar í dag og í sænsku úrvalsdeildinni vann Kalmar Íslendingaslaginn gegn Norrköping. 

Valgeir Valgeirsson var í byrjunarliði Örebro í dag þegar að liðið tók á móti Helsingborg. Valgeir lét til sín taka strax á 8. mínútu leiksins er hann átti hnitmiðað skot niður í vinstra hornið, skot sem Kalle Joelson í marki Helsingbort réði ekkert við. 

Þá var Axel Óskar Andrésson einnig í byrjunarliði Örebro í leiknum og lék hann allan leikinn. Mark Valgeirs má sjá hér fyrir neðan. 

Örebro er eftir leikinn í 13. sæti næstefstu deildar Svíþjóðar með tíu stig eftir níu leiki.

Í sænsku úrvalsdeildinni áttu Íslendingaliðin Kalmar og Norrköping við. Davíð Kristján Ólafsson var á sínum stað í varnarlínu Kalmar á meðan að nafnarnir Arnór Sigurðsson og Arnór Ingvi Traustason léku á miðjunni hjá Norrköping. Andri Lucas Guðjohnsen kom inn sem varamaður í liði Norrköping um miðbik seinni hálfleiks.

Leiknum lauk með 2-1 sigri Kalmar sem lyftir sér þar með upp að hlið Norrköping en liðin eru bæði með sautján stig í fjórða og fimmta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×