Fótbolti

Sigurmark undir lokin í Íslendingaslag

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron og Stefán Teitur í baráttu um boltann í leiknum í dag.
Aron og Stefán Teitur í baráttu um boltann í leiknum í dag. Vísir/Getty

Stefán Teitur Þórðarson og Aron Sigurðarson voru báðir í byrjunarliðum sinna félaga þegar Horsens tók á móti Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Aron Sigurðarson og félagar hans í Horsens eru í harðri fallbaráttu í dönsku deildinni um þessar mundir. Fyrir leikinn í dag sátu þeir í síðasta örugga sæti deildarinnar með 27 stig, jafn mörk og Álaborg og þremur meira en Lyngby sem Freyr Alexandersson stjórnar og þeir Alfreð Finnbogason, Sævar Atli Magnússon og Kolbeinn Finnsson leika með.

Leikurinn í dag gegn Silkeborg var því mikilvægur en Stefán Teitur Þórðarson er leikmaður Silkeborg. Eins og áður segir voru þeir Aron og Stefán Teitur báðir í byrjunarliðum í dag í leiknum sem var markalaus eftir fyrri hálfleikinn.

Í síðari hálfleik leit út fyrir að Silkeborg væri komið í forystuna en mark þeirra var dæmt af vegna rangstöðu. Það var í annað sinn í leiknum sem það gerðist því Silkeborg kom boltanum einnig í netið hjá Horsens í fyrri hálfleiknum en voru þá sömuleiðis dæmdir rangstæðir.

Markið kom þó að lokum. Á þriðju mínútu uppbótartíma skoraði Andreas Oggesen sigurmarkið fyrir gestina í Silkeborg en hann hafði komið inn af bekknum aðeins sjö mínútum fyrr. Lokatölur 1-0 og Lyngby getur jafnað Horsens að stigum í töflunni með sigri á Odense á sunnudag. Silkeborg er hins vegar öruggt um sitt sæti í deildinni enda tíu stigum fyrir ofan Horsens.

Aron Sigurðarson lék allan leikinn fyrir Horsens í dag en Stefán Teitur Þórðarson fór af velli fyrir markaskorarann Oggesen á 86. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×