Fótbolti

Lærisveinar Mourinho mæta Sevilla í úrslitum Evrópudeildarinnar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Tammy Abraham fagnar í leikslok í kvöld.
Tammy Abraham fagnar í leikslok í kvöld. Vísir/Getty

Roma og Sevilla tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu eftir að hafa slegið út lið Leverkusen og Juventus í undanúrslitum.

Einvígi Roma og Leverkusen var galopið eftir 1-0 sigur Roma á heimavelli í fyrri leiknum en stjórarnir, Xabi Alonso hjá Leverkusen og Jose Mourinho hjá Roma hafa í öðrum hlutverkum en Alonso lék lengi vel með Liverpool á sama tíma og Mourinho stýrði liði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni.

Leikurinn í kvöld var jafn og spennandi. Lið Leverkusen sótti mun meira á meðan Roma nýtti sér taktík sem Mourinho þekkir vel, að bakka niður og spila þéttan varnarleik.

Það tókst heldur betur hjá lærisveinum Jose Mourinho. Sama hvað Leverkusen reyndi þá tókst þeim ekki að skora og urðu að sætta sig við 0-0 jafntefli. Það dugir Roma til að ná sæti í úrslitaleiknum og Mourinho á nú möguleika á því að vinna enn einn Evróputitilinn sem þjálfari.

Í hinu einvíginu mættust lið Sevilla og Juventus á Spáni. Staðan eftir fyrri leikinn á Ítalíu var 1-1 og allt í járnum. Dusan Vlahovic kom Juventus í 1-0 í leiknum í kvöld með marki á 65. mínútu en Suso jafnaði fyrir Sevilla sex mínútum síðar.

Staðan var 1-1 að loknum venjulegum leiktíma og því varð að framlengja. Þar voru það heimamenn sem skoruðu eina markið. Það gerði Erik Lamela á 95. mínútu og leikmenn Juventus náðu ekki að fjafna þó svo að hafa verið einum fleiri síðustu mínúturnar eftir að Marcos Acuna fékk rautt spjald.

Lokatölur 2-1 og Sevilla því komið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar þar sem lið Roma bíður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×