Fótbolti

Svein­dís spilar úr­slita­leiki fyrir framan met­fjölda í Þýska­landi og Hollandi

Sindri Sverrisson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur hennar í Wolfsburg gerðu frábærlega í að slá út Arsenal í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu, og Bayern München í undanúrslitum þýska bikarsins.
Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur hennar í Wolfsburg gerðu frábærlega í að slá út Arsenal í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu, og Bayern München í undanúrslitum þýska bikarsins. Getty

Sveindís Jane Jónsdóttir verður í sviðsljósinu með þýska stórliðinu Wolfsburg á næstunni. Liðið spilar bikarúrslitaleik í Þýskalandi á morgun og úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 3. júní, og áhorfendamet verður slegið á báðum leikjum.

Svekkjandi 4-0 skellur gegn Frankfurt um helgina gerir það að verkum að Wolfsburg þarf nær örugglega að horfa á eftir þýska meistaratitlinum til Bayern München, með þær Glódísi Perlu Viggósdóttur, Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Cecilíu Rán Rúnarsdóttur innanborðs.

Hins vegar á Wolfsburg möguleika á tveimur öðrum titlum. Sá fyrri er í boði annað kvöld þegar Wolfsburg mætir Freiburg í bikarúrslitaleik í Köln.

Metið á bikarúrslitaleik slegið með stæl

Áhuginn á bikarúrslitaleiknum, sem sýndur er á ARD og Sky í Þýskalandi, er mikill og samkvæmt frétt Bild í dag hafa yfir 40.000 miðar selst. Því er ljóst að áhorfendamet verður selt og mögulegt er að það verði uppselt en völlurinn tekur 44.808 manns.

Fram til þessa er áhorfendamet á bikarúrslitaleik kvenna í Þýskalandi 26.282 manns, frá árinu 2010, og aldrei hafa fleiri séð félagslið kvenna mætast í Þýskalandi. Það met var sett á deildarleik Kölnar og Frankfurt í apríl og er 38.365 manns.

Wolfsburg hefur unnið bikarmeistaratitilinn átta ár í röð, og getur fyrirliðinn Alexandra Popp unnið níunda titilinn í röð.

Metfjöldi í Hollandi

Eftir bikarúrslitaleikinn spilar Wolfsburg tvo deildarleiki og þarf liðið að vinna þá báða, og treysta á að Bayern vinni hvorugan af sínum, til þess að Wolfsburg geti varið þýska meistaratitilinn.

Lokaleikur Wolfsburg á tímabilinu er svo sjálfur úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu, laugardaginn 3. júní, gegn Barcelona, en Wolfsburg komst þangað með því að slá út Arsenal í mögnuðu einvígi í undanúrslitum. Sveindís skoraði þar og lagði upp í fyrri leiknum.

Sá úrslitaleikur fer fram í Eindhoven í Hollandi og er þegar orðið uppselt, í fyrsta sinn á úrslitaleik Meistaradeildar kvenna. Alls seldust 34.100 miðar og því verður sett áhorfendamet á fótboltaleik kvenna í Hollandi. Fyrra metið átti hollenska landsliðið frá leik sínum við Ástralíu 2019, sem 30.640 manns sáu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×