Fótbolti

Tók við af Lagerbäck og fær áttatíu milljónir á ári

Sindri Sverrisson skrifar
Ståle Solbakken fær vel borgað hjá norska sambandinu.
Ståle Solbakken fær vel borgað hjá norska sambandinu. Getty/ Silvestre Szpylma

Ståle Solbakken ákvað að vera opinskár varðandi það hvaða laun hann fengi sem landsliðsþjálfari Noregs í fótbolta karla, eftir að hafa skrifað undir nýjan samning sem gildir fram yfir HM 2026.

Solbakken hefur verið landsliðsþjálfari Noregs frá því í desember 2020 en hann tók við liðinu eftir að Lars Lagerbäck, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, hafði stýrt Noregi í tæp fjögur ár.

Á blaðamannafundi á mánudag var Solbakken spurður um það hvað hann fengi í laun samkvæmt nýja samningnum, og ekki stóð á svari.

„Sex milljónir,“ en sex norskar milljónir samsvara tæplega 80 milljónum íslenskra króna og er þar um árslaun norska þjálfarans að ræða.

Aðspurður hvað hann fengi í bónusgreiðslur sagðist Solbakken ekki fá krónu, en Lise Klaveness, formaður norska knattspyrnusambandsins, tók þá til máls og sagði að bónusgreiðslur sem Solbakken fékk áður væru í nýja samningnum komnar inn í grunnlaunin.

Hún bætti því jafnframt við að Solbakken fengi bónus ef honum tækist að koma Noregi á EM á næsta ári, eða á HM 2026. Fyrir að koma Erling Haaland, Martin Ödegaard og félögum á stórmót fær Solbakken fimm milljónir norskra króna, eða rúmlega 65 milljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×