Innlent

„Eins og hver annar kjafta­klúbbur“ náist ekki sam­staða um bita­stæð við­brögð

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði segir fundinn geta haft mikla þýðingu ef leiðtogarnir ná saman um bitastæða yfirlýsingu um viðbrögð.
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði segir fundinn geta haft mikla þýðingu ef leiðtogarnir ná saman um bitastæða yfirlýsingu um viðbrögð. vísir/vilhelm

Nái leiðtogar Evrópuráðsins saman um sértæka, bitastæða yfirlýsingu um viðbrögð vegna innrásar Rússa í Úkraínu getur leiðtogafundurinn, sem fram fer í Hörpu í dag, haft veruleg áhrif. Takist það ekki er hann bara eins og hver annar kjaftaklúbbur. Þetta segir Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur.

Óvanalegt er að haldnir séu leiðtogafundir í Evrópuráðinu enda hefur ráðið, að sögn Eiríks, ekki haft mikla vigt í alþjóðasamskiptum lengst af.

„Það eru þó tímabil þegar Evrópuráðið hefur skipt miklu máli eins og eftir fall Berlínarmúrsins, en lengst af eru þetta aðrar stofnanir sem sjá um svona mál, Evrópusambandið, NATO og þess háttar sem hafa ákvörðunartökuvald þar sem leiðtogafundir eru haldnir reglulega.“

Fylgjast má með öllu því helsta tengdu leiðtogafundinum í vaktinni á Vísi:

Evrópuráðið er vettvangur þar sem nánast öll Evrópuríki eru samankomin sem gerir ráðið sérstakt. 

Óvíst hvort raunveruleg niðurstaða náist á fundinum

Á fundinum í dag og á morgun stendur til að setja saman tjónaskrá yfir þau skemmdarverk sem Rússar hafa framið í Úkraínu.

Aðspurður um þýðingu fundarins segir Eiríkur skipta öllu máli hvernig Evrópuríkin líti á tjónaskrána, hvort samstaða náist um skrána og viðbrögð við henni.

„Og þá veltur auðvitað allt saman á því hvort að í fyrsta lagi leiðtogarnir nái saman um einhvers konar sameiginlegan skilning á ástandinu, sem gera má ráð fyrir. En síðan í öðru lagi -  sem kannski skiptir enn meira máli, hvort leiðtogarnir nái saman um einhver viðbrögð, um einhverjar aðgerðir um til hvers þessi tjónaskrá eigi þá að leiða. Það er miklu flóknara mál og óvissara um að ráða hvort raunveruleg niðurstaða náist þar.“

Kjaftaklúbbur?

Eðlilega megi gera ráð fyrir að leiðtogarnir nái saman um almenna yfirlýsingu en hvort hún verði nægjanlega sértæk til að hafa raunverulegt bit í viðbrögðum við innrásina, þurfi að koma í ljós.

„Og takist það, þá getur þessi fundur haft veruleg áhrif, en takist það ekki - þá er þetta auðvitað bara eins og hver annar kjaftaklúbbur.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×