Erlent

Sykraðir drykkir inni­halda hundrað sinnum meira plast en flösku­vatn

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Þessir góðu menn flytja bæði sykraða drykki og vatn á flöskum á Spáni.
Þessir góðu menn flytja bæði sykraða drykki og vatn á flöskum á Spáni. Xavi Lopez/Getty

Sykraðir gosdrykkir innihalda allt að 100 sinnum meira plast en drykkjarvatn í flöskum, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem gerð var á Spáni.

Það var Umhverfis- og vatnsrannsóknarstofnun Spánar sem stóð fyrir rannsókninni og niðurstöður hennar eru birtar í vísindaritinu Environment International.

Alls voru 75 tegundir drykkja skannaðar fyrir 19 efnasamböndum sem bætt er við plast til að auka mýkt og sveigjanleika þess, en nýlegar rannsóknir sýna að þessi efnasambönd geta haft mjög skaðleg áhrif á mannslíkamann og valdið meðal annars taugaskemmdum, krabbameini, ófrjósemi og röskun á kirtlastarfsemi.

Meira en 95 prósent drykkjanna innihéldu að minnsta kosti eitt þessara efnasambanda. Mest var af þeim í sykruðum gosdrykkjum, eða að meðaltali 2876 nanógrömm á hvern lítra. Minnst af þessum ögnum er hins vegar að finna í vatni í flöskum, eða 20,7 nanógrömm á lítra. Athygli vekur að kranavatn í Barcelona innihélt 10 sinnum meira magn efnasambanda en flöskuvatnið og telja rannsakendur að það megi rekja til vatnslagnanna í vatnsveitukerfi borgarinnar.

Það kom ekki síður á óvart að þessi efnasambönd var að finna í öllum tegundum drykkjaríláta; plastflöskum, dósum og glerflöskum. Í ljós koma að litli plastflipinn inni í tappa glerflasknanna inniheldur átta af þessum efnasamböndum.

Niðurstöðurnar benda óyggjandi til þess að þessi plastefnasambönd komi að mestu leyti úr sykrinum sem settur er út í drykkina. Þrátt fyrir hátt innihald í sykruðu drykkjunum er það engu að síður undir svokölluðum öryggismörkum, og Ethel Eljarrat, einn af höfundum rannsóknarinnar bendir á, í samtali við spænska ríkisútvarpið, að margt smátt geri eitt stórt og að því megi ekki gleyma að mannskepnan neyti þessara varhugaverðu efnasambandi einnig þegar hún borðar mat og andar að sér súrefni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×