Erlent

Notuðu raf­byssu á mann og skutu hundana hans

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Atvikið var tekið upp og hefur vakið mikla athygli og reiði.
Atvikið var tekið upp og hefur vakið mikla athygli og reiði.

Yfirmenn Lundúnarlögreglunnar hafa gripið til varna fyrir lögreglumenn sem skutu mann með rafbyssu og skutu hundana hans tvo til bana fyrir framan öskrandi vitni. 

Myndskeið af atvikinu rataði á samfélagsmiðla og hefur framganga lögreglu verið harðlega gagnrýnd.

Við vörum við myndskeiðinu sem fylgir Twitter-færslunni hér fyrir neðan.

Atvik voru þannig að lögregla var kölluð til seinnipartinn í gær vegna konu sem hafði orðið fyrir árás hunds í austurhluta Lundúna. Þar fann lögregla fyrir mann með tvo hunda. Í yfirlýsingu segir að lögregluþjónunum hafi staðið ógn af hundunum.

Á myndskeiði sjást samskipti mannsins við lögreglu, þar sem maðurinn virðist vera að reyna að halda aftur af hundunum. Vitni segja hann hafa biðlað til lögreglu um að skjóta ekki hundana.

Samkvæmt Mirror sleppti maðurinn að lokum hundunum og var þá skotinn með rafbyssu og hundarnir skotnir til bana, fyrir framan „öskrandi vitni“ að sögn Guardian.

Í yfirlýsingu lögreglu segir að ákvarðanir af þessu tagi séu aldrei teknar að ástæðulausu og að lögreglu beri skylda til að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir meiri skaða en hefur þegar orðið. 

Atvikið verður rannsakað af þar til bærum yfirvöldum.

Mirror hefur eftir vitnum að maðurinn virðist hafa verið í áfalli eftir atvikið og sagt við lögregluþjónana að þeir gætu þá allt eins skotið hann líka fyrst þeir drápu hundana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×