Fótbolti

Sæ­var Atli og Kol­beinn hetjur Lyng­by í mikil­vægum sigri

Aron Guðmundsson skrifar
Sævar Atli í leik með Lyngby
Sævar Atli í leik með Lyngby Vísir/Getty

Sævar Atli Magnússon reyndist hetja danska úrvalsdeildarfélagsins Lyngby í dag er hann skoraði sigurmarkið í leik liðsins gegn Midtjylland. Vonir Lyngby um að halda sæti sínu í deildinni lifa enn. 

Lyngby er að berjast fyrir lífi sínu í dönsku úrvalsdeildinni um þessar mundir en deildin er nú tvískipt þar sem að neðri sex liðin berjast um að sleppa við fall úr deildinni. 

Freyr Alexandersson er þjálfari Lyngby og í dag tók liðið á móti efsta liði neðri hlutans, Midtjylland. 

Tochi Chukwuani kom heimamönnum yfir strax á 2.mínútu leiksins er hann skoraði eftir stoðsendingu frá Kolbeini Finnssyni. 

Leikmenn Midtjylland náðu hins vegar að svara fyrir sig á 13.mínútu með marki frá Stefan Gartenmann. 

Á 32.mínútu var röðin hins vegar komin að Sævari Atla Magnússyni en hann kom Lyngby yfir með marki eftir stoðsendingu Lucas Hey. 

Jafnframt reyndist mark Sævars vera sigurmark leiksins og því þrjú dýrmæt stig í pokann hjá lærisveinum Freys Alexanderssonar.

Nú þegar að fjórar umferðir eru eftir af tímabilinu í dönsku úrvalsdeildinni á Lyngby, sem situr í neðsta sæti deildarinnar, enn möguleika á því að bjarga sér frá falli. 

Aðeins þrjú stig skilja á milli Lyngby og Horsens sem situr í ellefta og síðasta örugga sæti deildarinnar.

Það verður því fróðlegt að fylgjast með þróun mála hjá liðinu á næstu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×