Fótbolti

„Mér finnst við eiga mikið inni“

Jón Már Ferro skrifar
Sigurður Egill lagði upp tvö og skoraði eitt í kvöld.
Sigurður Egill lagði upp tvö og skoraði eitt í kvöld. vísir/bára

Sigurður Egill Lárusson, leikmaður Vals, var kátur eftir 1-6 sigur Vals á Fylki í kvöld. Hann skoraði eitt mark og lagði upp tvö í fjórða sigri Vals í Bestu deildinni. Með sigrinum komst liðið upp að hlið Víkings á toppi deildarinnar.

„Þetta var kannski ekki alveg fullkominn leikur, en virkilega góður. Sérstaklega í fyrri hálfleik, þá vorum við að sundurspila þá og fengum fullt af færum, og ég legg upp tvö og skora eitt, þannig að ég er bara virkilega sáttur,“ sagði Sigurður Egill eftir leik.

Valur var meira með boltann allan leikinn og sérstaklega í fyrri hálfleiknum.

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn bara mjög þægilegur og við vorum virkilega góðir, spiluðum vel og áttum fullt af færum, en hefðum getað haldið betur í boltann í þeim seinni, en heilt yfir er ég mjög sáttur,“ sagði Sigurður Egill.

Valur jafnaði Víking að stigum með sigrinum í kvöld, en Víkingar eiga þó leik til góða.

„Mér finnst þetta bara flott byrjun á tímabilinu. Þetta eru tólf stig af fimmtán mögulegum en mér finnst við eiga mikið inni. Við verðum bara betri og betri með hverjum leik, og ég er mjög bjartsýnn á framhaldið,“ sagði Sigurður Egill.

Valur hefði auðveldlega getað skorað fleiri mörk í kvöld en hefði að sama skapi getað fengið fleiri á sig. Á undirbúningstímabilinu fékk Valur varla á sig mark og varnarleikur þeirra var virkilega sterkur. Meiðsli Hólmars Arnars Eyjólfssonar og Elfars Freys Helgasonar hafa sett strik í reikninginn.

„Við erum að skapa fullt af færum og halda vel í boltann. Við þurfum að passa betur upp á markið okkar eins og við gerðum í vetur,“ sagði Sigurður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×