Innlent

Játaði að hafa tekið við illa fengnum 7.100 evrum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Konan var á Leifsstöð á leið til Póllands þegar hún var handtekin.
Konan var á Leifsstöð á leið til Póllands þegar hún var handtekin. Vísir/Vilhelm

Albönsk kona á fimmtugsaldri hefur verið dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa tekið við 7.100 evrum af óþekktum aðila og ætlað að ferðast með þær til Póllands. Konan var sakfelld fyrir peningaþvætti en fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjaness að ekki hafi dulist að peningurinn hafi verið ávinningur refsiverðra brota.

Málið var þingfest, tekið fyrir og dómur féll í því í gær. Konan, sem er með ríkisfang í Albaníu, var ákærð af Lögreglustjóranum á Suðurnesjum 3. maí síðastliðinn fyrir peningaþvætti. Fram kemur í dómnum að hún hafi á tímabilinu 5. til 8. mars síðastliðinn tekið við samtals 7.100 evrum, sem nemur um 1.070 þúsund krónum, frá óþekktum aðilum. Konunni hafi ekki getað dulist að um væri að ræða ávinning af refsiveðrum brotum. 

Þá hafi konan verið með reiðuféð í sinni vörslu í Leifsstöð þegar lögregla handtók hana þar og leitaði á henni 8. mars. Konan var þá á leið til Varsjár í Póllandi. 

Konan játaði afdráttarlaust brotið fyrir dómi og samþykkti kröfu ákæruvaldsins um að gera peningana upptæka. Konan var þá dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×