Fótbolti

Real Madrid tapaði og Börsungar með níu fingur á titlinum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jordi Alba reyndist hetja Barcelona í kvöld.
Jordi Alba reyndist hetja Barcelona í kvöld. Alex Caparros/Getty Images

Real Madrid mátti þola 2-0 tap er liðið heimsótti Real Sociedad í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Fyrr í kvöld vann Barcelona 1-0 sigur gegn Osasuna og Börsungar eru því komnir með níu fingur á spænska meistaratitilinn.

Það var Jordi Alba sem var óvænt hetja Börsunga fyrr í kvöld þegar hann tryggði liðinu 1-0 sigur gegn Osasuna með marki á 85. mínútu.

Gestirnir í Osasuna þurftu að leika manni færri frá 27. mínútu eftir að Jorge Herrando fékk aðlíta beint rautt spjald. Þrátt fyrir það áttu Börsungarí stökustu vandræðum með að finna sigurmarkið, en varamaðurinn Jordi Alba reyndist hetja liðsins á lokamínútum leiksins.

Þá mátti Real Madrid þola 2-0 tap gegn Real Sociedad þar sem Take skoraði fyrra mark leiksins fyrir heimamenn. Dani Carvajal fékk að líta tvö gul spjöld með stuttu millibili í síðari hálfleik og þar með rautt og Madrídingar léku því síðasta hálftíma leiksins manni færri.

Heimamenn nýttu sér liðsmuninn og Ander Barrenetxea gulltryggði 2-0 sigur Real Sociedad þegar um fimm mínútur voru til leiksloka.

Barcelona er nú með 14 stiga forskot á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar þegar aðeins fimm umferðir eru eftir. Liðið er með 82 stig þegar aðeins 15 stig eru eftir í pottinum og því í raun aðeins spurning um hvenær frekar en hvort Barcelona tryggir sér spænska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×