Enski boltinn

Xavi: Manchester City á skilið að vinna þrennuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola og Xavi Hernandez á góðri stundu.
Pep Guardiola og Xavi Hernandez á góðri stundu. Getty/Alex Caparros

Manchester City er komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar eftir sigur á Fulham um helgina. Liðið er því áfram á góðri leið að vinna sögulega þrennu.

City liðið er nú með eins stigs forskot á Arsenal á toppi ensk úrvalsdeildarinnar og á auk þess einn leiki inni. Liðið er einnig komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar eftir að hafa slegið Bayern München út 4-1 samanlagt. Þá mætir City nágrönnum sínum í Manchester United í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar 3. júní.

Xavi Hernandez spilaði undir stjórn Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City, hjá Barcelona en er nú sjálfur orðinn þjálfari Barcelona liðsins.

Xavi var spurður út í það á blaðamannafundi hvort það væri sanngjarnt ef City myndi vinna þrennuna.

„Já, það væri það. Í mínum huga þá er þetta besta liðið í heiminum í dag. Þeir hafa besta þjálfarann og þessi fótbolti sem spilar er fóbolti sem við viljum spila. Þetta yrði mjög sanngjörn þrenna,“ sagði Xavi Hernandez.

Aðeins eitt enskt félag hefur unnið þrennuna en það er Manchester United tímabilið 1998-99. United tryggði sér þá alla þrjá titlana með því að vinna þrjá leiki í röð á ellefu dögum.

Dramatískasti sigurinn var sá í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þar sem liðið skoraði tvö mörk í uppbótatíma og vann 2-1 sigur á Bayern München.

Svo gæti farið að United kæmi í veg fyrir þrennuna með því að vinna bikarúrslitaleik Manchester liðanna og halda sér um leið á einstökum stað í sögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×