Fótbolti

Fjögurra mínútna þrenna er Haukar völtuðu yfir KH

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir þurfti ekki nema fjórar mínútur til að skora þrennu fyrir Hauka í kvöld.
Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir þurfti ekki nema fjórar mínútur til að skora þrennu fyrir Hauka í kvöld. Haukar

Fimm leikir fóru fram í Mjölkurbikar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Haukar unnu öruggan 5-1 sigur gegn KH og þær Birgitta Hallgrímsdóttir og Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoruðu þrennur fyrir sín lið er Grótta vann góðan sigur gegn ÍA og Fylkir lagði ÍH.

Það var hins vegar Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir sem stal senunni í leik Hauka og KH er hún skoraði þrennu á aðeins fjögurra mínútna kafla fyrir Haukaliðið.

Ragnheiður kom Haukum í 1-0 forystu á 35. mínútu og á þeirri 39. hafði hún bætt tveimur mörkum við til viðbótar og fullkomnað þrennuna.

Valgerður Gríma Sigurjónsdóttir minnkaði þó muninn fyrir gestina eftir að Ana Catarina hafði skorað fjórða mark Hauka stuttu fyrir hálfleik. Viktoría Jóhannsdóttir skoraði svo eina mark síðari hálfleiksins þegar hún gulltryggði 5-1 sigur Hauka.

Þrenna Ragnheiðar var þó ekki eina þrenna kvöldsins því þær Birgitta Hallgrímsdóttir og Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoruðu báðar þrennu fyrir sín lið.

Birgitta skoraði þrjú í 4-2 útisigri gegn ÍA og Guðrún gerði slíkt hið sama í 4-2 útisigri gegn ÍH.

Þá vann Fram 3-1 sigur gegn HK, en úrslit úr leik FHL og Einherja hafa ekki enn borist inn á heimasíðu KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×