Erlent

Tekinn af lífi fyrir sam­særi um inn­flutning á kílói af kanna­bis

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tangaraju var hengdur í morgun í Changi-fangelsinu.
Tangaraju var hengdur í morgun í Changi-fangelsinu. epa/How Hwee Young

Tangaraju Suppiah, 46 ára, hefur verið tekinn af lífi í Singapúr fyrir samsæri um smygl á kílói af kannabis. Tangaraju var hengdur í morgun, þrátt fyrir mótmæli Sameinuðu þjóðanna og aðgerðasinna.

Tangaraju var dæmdur til dauða árið 2018 eftir að dómari komst að þeirri niðurstöðu að hann væri eigandi símanúmers sem hafði verið notað til að skipuleggja innflutning á kannabisinu. Gagnrýnendur sögðu málið hins vegar byggja á veikum grunni og að Tangaraju hefði ekki fengið viðunandi lögfræðiaðstoð.

Tangaraju varði sjálfan sig á seinni stigum málsins en aðgerðasinnar segja það sífellt algengara vegna erfiðleika með að útvega verjendur.

Fjölskylda Tangaraju birti myndskeið í gær þar sem hún biðlar til almennings um að þrýsta á forseta landsins að koma í veg fyrir aftökuna. „Frændi minn er góður maður, hann var ómenntaður og átti ekki peninga en lagði hart af sér til að annast okkur,“ sagði frænka hans.

Fulltrúi Human Rights Watch segir aftökur vegna fíknefnadóma til skammar fyrir Singapúr og til marks um að ímynd landsins sem nútímaríkis sé tálmynd. Stjórnvöld segja fælingarmátt dauðarefsingarinnar hins vegar mikinn og þá njóti hún stuðnings meðal íbúa landsins.

Ellefu voru teknir af lífi vegna fíkniefnatengdra dóma í fyrra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×