Fótbolti

Castellanos skoraði fjögur og Madrídingar svo gott sem búnir að missa af titlinum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Taty Castellanos skoraði öll fjögur mörk Girona í kvöld.
Taty Castellanos skoraði öll fjögur mörk Girona í kvöld. Eric Alonso/Getty Images

Taty Castellanos fer líklega sáttur að sofa í kvöld eftir að leikmaðurinn skoraði öll mörk Girona er liðið vann vægast sagt óvæntan 4-2 sigur gegn Real Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Castellanos kom heimamönnum í Girona í forystu strax á tólftu mínútu leiksins áður en hann bætti öðru marki sínu við tólf mínútum síðar og kom Girona í 2-0.

Vinicius Junior minnkaði þó muninn fyrir gestina á 34. mínútu og staðan var því 2-1 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Castellanos var þó hvergi nærri hættur því hann fullkomnaði þrennuna strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks og bætti svo fjórða markinu við eftir rétt rúmlega klukkutíma leik. Hann fékk svo heiðursskiptingu á 72. mínútu og getur verið sáttur við dagsverkið.

Varamaðurinn Lucas Vazques klóraði í bakkann fyrir Madrídinga þegar um fimm mínútur voru til leiksloka, en nær komust gestirnir ekki og niðurstaðan varð 4-2 sigur Girona.

Madrídingar sitja því enn í öðru sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 65 stig eftir 31 leik, ellefu stigum minna en topplið Barcelona sem á leik til góða. Girona situr hins vegar í níunda sæti með 41 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×