Fótbolti

Segir „hárblásarameðferð“ Fergusons stundum nauðsynlega

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sir Alex Ferguson var ekki hræddur við að láta leikmenn heyra það og svo virðist sem Erik ten Hag geri slíkt hið sama.
Sir Alex Ferguson var ekki hræddur við að láta leikmenn heyra það og svo virðist sem Erik ten Hag geri slíkt hið sama. Ash Donelon/Manchester United via Getty Images

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segist ekki vera hræddur við að nota hina frægu „hárblásarameðferð“ á leikmenn sína. Sir Alex Ferguson notaði meðferðina í ófá skipti og Ten Hag segir hana stundum nauðsynlega til að koma skilboðum til leikmanna til skila.

United mætir Brighton í undanúrslitum FA-bikarsins í dag, en liðið mátti þola niðurlægjandi 3-0 tap gegn Sevilla í Evrópudeildinni síðastliðinn fimmtudag. Liðsmenn United gáfu andstæðingum sínum þá tvö mörk á silfurfati og Hollendigurinn segir að stundum þurfi hann að láta leikmenn heyra það eftir slæma frammistöðu.

„Já, í einstökum aðstæðum get ég verið frekar harður við þá,“ sagði Ten Hag aðspurður að því hvort að gripi stundum til „hárblásarameðferðarinnar“ sem svo oft er kennd við Sir Alex Ferguson.

„Hún er verkfæri sem maður getur notað, en það þarf að velja réttar tímasetningar til að nota hana. Þú þarft að vita hvenær það er við hæfi. Sem þjálfari geturðu valið um marga samskiptastíla og þessi meðferð er einn þeirra.“

„Á fimmtudaginn sáuð þið örugglega á mér að ég var mjög reiður. Fyrir mér var þetta óásættanleg frammistaða. Það geta allir gert mistök, en þú verður að halda áfram eftir þau. Þegar þú ert komin í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar þarftu að gefa allt í leikinn, en við gerðum það ekki.“

„Það skiptir ekki máli fyrir hvaða félag þú spilar, þetta var óásættanlegt. Sem þjálfari get ég ekki sætt mig við það þegar liðið mitt er ekki að gera sitt besta. Ég myndi aldrei sætta mig við það og ég lét leikmennina vita af því,“ sagði Ten Hag að lokum.

Manchester United sækir Brighton heim í undanúrslitum FA-bikarsins klukkan 15:30 í dag og verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×