Innlent

Hús íslenskunnar heitir Edda

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Edda er ansi glæsileg, sérstaklega þegar veggir hennar lýsast upp á kvöldin.
Edda er ansi glæsileg, sérstaklega þegar veggir hennar lýsast upp á kvöldin. Stjórnarráðið/Sigurður Stefán Jónsson

Hús íslenskunnar, nýtt húsnæði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Háskóla Íslands, hefur fengið nafnið Edda. Nafnið var afhjúpað við hátíðlega athöfn í dag. Alls bárust rúmlega þrjú þúsund tillögur í nafnasamkeppni um húsið sem hefur verið í byggingu frá 2019.

Meðal þeirra sem tóku til máls við vígsluathöfn hússins voru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Á morgun, sumardaginn fyrsta, verður opið hús í Eddu þar sem gestir og gangandi geta skoðað húsið og notið skemmtilegrar dagskrár.

Mun varðveita mestu gersemar Íslendinga

Húsnæðið mun hýsa starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands og verður miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum; tungu, bókmenntum og sögu.

Þar verða jafnframt varðveitt frumgögn um íslenska menningu, þ.e. handrit, skjöl, orða- og nafnfræðisöfn og þjóðfræðasöfn. 

Í byggingunni eru ýmis sérhönnuð rými fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum. Þar verða einnig vinnustofur kennara og fræðimanna, lesaðstaða fyrir nemendur, fyrirlestra- og kennslusalir og bókasafn með lesaðstöðu.

Langur aðdragandi að byggingu hússins

Ákvörðun um framlag til byggingar hússins var tekin á Alþingi árið 2005. Niðurstaða hönnunarsamkeppni um útlit hússins var kynnt árið 2008 og fyrsta skóflustunga var tekin árið 2013. Verkefnið hefur því verið lengi í vinnslu.

Á árunum 2016 til 2018 fór fram ítarleg endurskoðun og rýni á hönnun hússins með það fyrir augum að ná fram hagkvæmni í byggingu og rekstri. Í maí 2019 var gengið frá samningum um byggingu þess og hófust framkvæmdir í kjölfarið.

Heildarkostnaður við byggingu hússins er um 98,9% áætlun frá 2019 á verðlagi dagsins í dag. Stefnt var að því að flytja inn í húsið í haust svo áfangi hefur náðst á undan áætlun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×