Fótbolti

Sjáðu tvennu Arnórs sem skaut Norr­köping á toppinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Sigurðsson er allt í öllu hjá Norrköping.
Arnór Sigurðsson er allt í öllu hjá Norrköping. IFK Norrköping

Það er mikil ábyrgð á herðum landsliðsmannsins Arnórs Sigurðssonar þessa dagana en sparkspekingar í Svíþjóð telja hann með betri leikmönnum sænsku úrvalsdeildarinnar. Arnór stóð undir væntingum í dag þegar hann skoraði tvívegis í 2-1 sigri Norrköping á Värnamo.

Arnór skoraði fyrsta mark leiksins þegar fimmtán mínútur voru liðnar en markvörður gestanna gerði sig þá sekan um slæm mistök. Arnór skorar ekki auðveldari mörk á leiktíðinni.

Värnamo jafnaði metin í blálokin á fyrri hálfleik en Arnór svaraði einfaldlega skömmu eftir að síðari hálfleikur fór af stað á ný. Það var heppnisstimpill yfir markinu en Arnór tók mann og annan á áður en hann skaut að marki. Boltinn hafði viðkomu í varnarmanni áður en hann söng í netinu.

Lokatölur 2-1 Norrköping í vil. Arnór var ekki eini Íslendingurinn í byrjunarliði liðsins í dag en nafni hans Arnór Ingvi Traustason lék 68 mínútur á miðri miðjunni. Þá kom Andri Lucas Guðjohnsen inn af bekknum þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.

Norrköping er nú með 7 stig að loknum þremur leikjum og trónir á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar. Kalmar, Häcken og Malmö koma þar á eftir með 6 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×