Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Samkvæmt Birki Smára Guðmundssyni, lögmanni Sigurjóns, snúa málavextir að vangreiddum launum á uppsagnarfresti. Að öðru leyti hafi umbjóðandi hans ekki áhuga á að tjá sig um málavexti.
Arena Gaming mun heldur ekki tjá sig um málið en ráðningarsamningi við Sigurjón var rift af hálfu félagsins í marsmánuði árið 2022. Sigurjón starfaði áður sem framkvæmdastjóri Minigarðsins og Sjóbaðanna á Húsavík.
Nýr framkvæmdastjóri Arena Gaming, Daníel Kári Stefánsson, tók við rekstrinum þann 3. apríl árið 2022 og síðan Eva Margrét Guðnadóttir í nóvember sama ár. Arena Gaming er 1.100 fermetra afþreyingarmiðstöð með aðsetur í Turninum á Smáratorgi í Kópavogi. Félagið var stofnað árið 2021 og er með samning við Ungmennafélagið Breiðablik um aðstöðu fyrir rafíþróttir. Þar er einnig starfræktur veitingastaðurinn Bytes.