Fótbolti

Vilja reynslu­bolta í stað Arnars og fengu alls konar á­bendingar

Sindri Sverrisson skrifar
Vanda Sigurgeirsdóttir leitar nú ásamt tveimur samstarfsfélögum að næsta þjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta.
Vanda Sigurgeirsdóttir leitar nú ásamt tveimur samstarfsfélögum að næsta þjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta. Getty/Alex Nicodim og Vísir/Vilhelm

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, segir að markmiðið sé að næsti þjálfari karlalandsliðs Íslands í fótbolta verði þjálfari með mikla, alþjóðlega reynslu. Fáir íslenskir þjálfarar passi við það viðmið.

Þetta kom fram í viðtali við Vöndu á Morgunvaktinni á Rás 1. Þar sagði hún að leit að arftaka Arnars Þórs Viðarssonar væri í fullum gangi og að nýr þjálfari yrði vonandi ráðinn á næstu vikum, eða í síðasta lagi fyrir mánaðamót. Næsti mótsleikur Íslands er gegn Slóvakíu 17. júní, í undankeppni EM á Laugardalsvelli. Spurð út í leitina sagði Vanda:

„Þetta er alltaf viðkvæmt en það sem gerist er að við bæði förum á stúfana sjálf og svo berast alls konar nöfn til okkar. Það var mjög ánægjulegt hvað það var mikill áhugi á þessu og það bárust nöfn víða að úr álfunni,“ sagði Vanda og bætti við að ábendingar um þjálfara hefðu borist með ýmsum hætti. „Í gegnum umboðsmenn, vini og velgjörðarmenn Íslands.“

Ekki margir íslenskir sem uppfylla þetta

Vanda sagði enn ekki búið að þrengja hóp þeirra þjálfara sem kæmu til greina niður í ákveðinn fjölda en að vissulega væri forgangsraðað eftir álitlegustu kostum. Á þessu stigi sé lítið hægt að tjá sig en ljóst sé að þjálfarinn verði að haka í ákveðin box. Arnar var ráðinn án þess að hafa stýrt A-landsliði eða félagsliði í Evrópukeppni, en nýr þjálfari á helst að hafa mikla reynslu af alþjóðlegum fótbolta:

„Við höfum verið að leggja áherslu á reynslu. Við viljum reynslumikinn þjálfara með reynslu úr alþjóðlegum fótbolta. Það er eitt af okkar meginviðmiðum,“ sagði Vanda á Morgunvaktinni og bætti við að viðkomandi mætti gjarnan hafa þjálfað landslið áður.

„Við setjum markið hátt og reynum að finna eins góðan þjálfara og við mögulega getum,“ sagði Vanda og á henni var að heyra að næsti landsliðsþjálfari yrði erlendur ef það gengi upp fjárhagslega:

„Já, það gæti alveg eins farið svo. Við vitum það öll að það eru ekkert svo margir sem uppfylla þetta [að hafa mikla alþjóðlega reynslu] af íslenskum þjálfurum. Sumir þeirra hafa nú þegar talað um það sjálfir. Óskar Hrafn talaði um það í viðtali hvað það væri mikilvægt að það þyrfti reynslubolta í þetta starf,“ sagði Vanda og vísaði í viðtali við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara Íslandsmeistara Breiðabliks, sem birtist á Vísi.

„En við erum ekki að útiloka neitt. Það geta verið alls konar launakröfur og það segja ekkert endilega allir já við okkur af þeim sem við viljum fá. En við vildum alla vega byrja á að setja markið hátt. Setja háar kröfur og gera það sem við teljum best að gera. Hvað er líklegast til að við náum árangri? Það er reyndur þjálfari sem hefur gert þetta áður. Við byrjum þar og svo sjáum við til hvar við endum, en vonandi endum við þar líka,“ sagði Vanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×