Innlent

Blásið til í­búa­fundar í Ár­borg til að ræða leiðir úr skulda­vandanum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fundurinn verður haldinn á Hótel Selfoss á morgun.
Fundurinn verður haldinn á Hótel Selfoss á morgun. Vísir/Arnar

Sveitarstjórnaryfirvöld í Árborg hafa unnið áætlun í samstarfi við innviðaráðuneytið um endurskipulagningu á rekstri sveitarfélagsins, sem verður kynnt á íbúafundi á Hótel Selfoss klukkan 17 á morgun.

„Fjárhagsstaðan er erfið hjá sveitarfélaginu og það hefur alveg komið fram í gegnum kosningabaráttuna og í fréttum síðasta árið. Við erum orðin mjög skuldsett. Það hefur verið mikið fjárfest á síðustu árum og sveitarfélagið hefur vaxið mjög hratt. Staðan er alvarleg hjá sveitarfélaginu og við viljum bregðast við strax,“ segir Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs, í samtali við Morgunblaðið.

Samkvæmt úttekt sem unnin var fyrir bæjarstjórn Árborgar og gefin út í janúar 2019 jukust skuldir sveitarfélagsins úr 2,8 milljörðum árið 2002 í 11,1 milljarða árið 2017. 

Þá námu heildarskuldir Árborgar 25 milljörðum árið 2021.

Bragi segir í samtalinu við Morgunblaðið að búið sé að vinna áætlun um það hvernig á að komast úr vandanum en hann neitar því að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hafi yfirtekið sveitarfélagið.

„Þetta er ekki þannig. Við erum í rauninni í samstarfi við þau um að fá þeirra reynslu og stuðning í þessari endurskipulagningu sem við erum í núna. Þar er sveitarfélagið að sýna frumkvæði í því að hafa samband við innviðaráðuneytið að fyrra bragði. Við viljum þeirra reynslu og aðkomu til að styðja við okkur.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×