Innlent

Engar tilkynningar um flóð á Austfjörðum enn sem komið er

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Vel er fylgst með Seyðisfirði til að mynda þar úrkoma hefur verið mikil. 
Vel er fylgst með Seyðisfirði til að mynda þar úrkoma hefur verið mikil.  Vísir/Aðsend

Áfram er hætta á skriðum og ofanflóðum á Austfjörðum en talsverð rigning er á svæðinu og gul veðurviðvörun í gildi. Engar tilkynningar hafa borist um flóð enn sem komið er og er ekki talin hætta í byggð að sögn ofanflóðasérfræðings þó mögulegt sé að grjót gæti hrunið á vegi.

Gul viðvörun hefur verið í gildi frá því klukkan tíu í gærmorgun á austfjörðum og er í gildi til klukkan fjögur í nótt en talsverð rigning er á svæðinu samhliða hlýindum. Búist er við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum og er því aukin hætta á flóðum og skriðuföllum. 

Minney Sigurðardóttir, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir engar tilkyninngar þó hafa borist um flóð enn sem komið er.

„Það er frost í jörðu og þess vegna er þröskuldurinn aðeins lægri hjá okkur en vanalega. Þannig það er ekkert ólíklegt að við sjáum einhverjar yfirborðshreyfingar á meðan það er úrkoma. Það er úrkoma fram á nóttu þannig við erum bara að fylgjast mjög vel með aðstæðum,“ segir Minney.

Sérstaklega er fylgst með Seyðisfirði og Eskifirði en rigning er á öllum Austfjörðum og á Suðausturlandi sem gæti raskað samgöngum.

„Við erum ekki að horfa á neina hættu í byggð, það er kannski búist við grjóthruni úti á vegi undir mjög bröttum hlíðum en annars ekki nein hætta þannig séð. Við bara erum að fylgjast með þessu og ef fólk verður vart við eitthvað þá má endilega tilkynna það til okkar,“ segir hún.

Spár gera ráð fyrir að það rigni fram á nótt en það verði þurrt á morgun. Staðan verður endurmetin ef ástæða gefst til.

„Það er ekki spáð neinni mikilli úrkomu næstu vikuna en spárnar náttúrulega breytast þannig það er bara fylgst vel með því. En af því það er frost í jörðu þá situr vatnið á yfirborðinu og þess vegna eru þessar yfirborðsskriður mögulegar í þessari rigningu núna,“ segir Minney.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×