Innlent

Hafa náð saman um frí­verslun við Mol­dóvu

Atli Ísleifsson skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir samninginn marka þáttaskil í samskiptum þjóðanna.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir samninginn marka þáttaskil í samskiptum þjóðanna. Vísir/Vilhelm

EFTA-ríkin og Moldóva hafa komist að samkomulagi um fríverslunarsamning sem undirritaður verður á næsta ráðherrafundi EFTA í Liechtenstein í júní næstkomandi.

Frá þessu segir á vef utanríkisráðuneytisins en viðræðurnar tóku tvö ár og hafi lengst af farið fram í skugga innrásar Rússlands í Úkraínu. Einar Gunnarsson, sendiherra Íslands í Genf, leiddi viðræðurnar fyrir hönd EFTA-ríkjanna.

Um samninginn segir að hann kveði á um frekari markaðsopnun fyrir viðskipti með vörur og þjónustu milli Íslands og Moldóvu og komi á stofn vettvangi fyrir EFTA-ríkin og Moldóvu til viðræðna um frekari samvinnu á sviði efnahagsmála. Samningurinn taki einnig til fjárfestinga, opinberra innkaupa, hugverkaverndar, samkeppnismála, sjálfbærra viðskipta og rafrænna viðskipta.

Haft er eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra að samkomulagið marki þáttaskil í samskiptum þjóðanna og opni á viðskiptaleg tækifæri í hlutaðeigandi ríkjum.

„Þrátt fyrir stríð í Evrópu og blikur á lofti í alþjóðaviðskiptum felur samkomulagið í sér ríkan vilja til aukinnar efnahagslegrar samvinnu. Með fríverslunarsamningnum styður Ísland ásamt hinum EFTA-ríkjunum, Liechtenstein, Noregi, og Sviss, viðleitni stjórnvalda í Moldóvu til vestrænnar samvinnu með beinum hætti,“ er haft eftir ráðherra.

Moldóva er eitt af fyrrverandi lýðveldum Sovétríkjanna og er landlukt ríki með landamæri að Úkraínu og Rúmeníu. Moldóva er eitt fátækasta ríki Evrópu og telja íbúar þess um 2,5 milljónir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×