Fótbolti

Messi skoraði sitt hundraðasta lands­liðs­mark í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar einu marka sinna í nótt.
Lionel Messi fagnar einu marka sinna í nótt. AP/Nicolas Aguilera

Huggulega heimferðin hjá Lionel Messi varð enn huggulegri í nótt þegar hann skoraði þrennu í 7-0 stórsigri Argentínu á Curacao í vináttulandsleik sem var spilaður í Argentínu.

Messi hefur verið heiðraður við hvert tækifæri í þessari ferð heim til Argentínu en argentínska landsliðið spilaði þar líka tvo fyrstu leiki sína sem ríkjandi heimsmeistarar.

Þeir áhorfendur sem voru svo heppnir að ná sér í miða fengu líka eitthvað fyrir peninginn því einn allra besti fótboltamaður sögunnar var á skotskónum.

Messi þurfti bara fyrri hálfleikinn til að skora þrennu en um leið náði hann enn einum tímamótunum á hans ferli.

Með fyrsta marki sínu í þrennunni þá var hann kominn með hundrað mörk fyrir argentínska landsliðið og er hann fyrsti Suður-Ameríkumaðurinn sem nær því.

Messi hefur nú skorað 102 mörk í 174 landsleikjum þar af er hann með 31 mark í 32 leikjum frá og með árinu 2021. Það eru sautján ár síðan að Messi skoraði sitt fyrsta mark fyrir argentínska landsliðið sem var í tapi á móti Króatíu í mars 2006. Þetta var hans sjöunda þrenna fyrir landsliðið.

Messi hafði skoraði sitt átta hundraðasta mark á ferlinum í hinum leik gluggans þar sem Argentína vann 2-0 sigur á Panama.

Messi skoraði mörkin sín í nótt á 20., 33. og 37. mínútu en hann lagði líka upp mark fyrir Chelsea manninn Enzo Fernández á 35. mínútu. Nicolás González skoraði annað mark leiksins á 23. mínútu.

Staðan var 5-0 í hálfleik en síðustu tvö mörkin komu á 78. og 87. mínútu. Það fyrra skoraði Ángel Di María úr vítaspyrnu en það síðasta skoraði Gonzalo Montiel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×