Fótbolti

Sjáðu nýja aug­­lýsingu fyrir Bestu deildina: Mafíósar messa yfir Heimi og ís­kaldir Víkingar biðja um vægð

Sindri Sverrisson skrifar
Víkingar í ísbaði í auglýsingunni fyrir Bestu deildirnar. Þeir þurfa að vera tilbúnir að „suffera“ að mati Arnar Gunnlaugssonar þjálfara.
Víkingar í ísbaði í auglýsingunni fyrir Bestu deildirnar. Þeir þurfa að vera tilbúnir að „suffera“ að mati Arnar Gunnlaugssonar þjálfara. Skjáskot

„Þetta er að byrja. Besta deildin, síson tvö. Reddí?“ segir Jón Jónsson í upphafi nýrrar og bráðfyndinnar auglýsingar úr smiðju Hannesar Þórs Halldórssonar fyrir Bestu deildina í fótbolta. Auglýsinguna má nú sjá á Vísi.

Keppni í Bestu deild karla hefst annan í páskum, mánudaginn 10. apríl, með heilli umferð og boltinn byrjar svo að rúlla í Bestu deild kvenna 25. apríl en þetta verður fyrsta leiktíðin með úrslitakeppni í þeirri deild.

Í auglýsingunni er knattspyrnumaðurinn fyrrverandi og söngvarinn Jón Jónsson í aðalhlutverki en margar af helstu stjörnum Bestu deildanna koma fram í auglýsingunni sem er stórskemmtileg. Hana má sjá hér að neðan.

Klippa: Auglýsingin fyrir Bestu deildirnar 2023

„Af hverju fluttum við frá Orlando?“

„Rifjaðu upp með mér; af hverju fluttum við frá Orlando?“ segir Erin McLeod við eiginkonu sína Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur þar sem þær horfa á snjókomuna úti, en þær eru mættar í Stjörnuna frá Orlando Pride.

Þjálfararnir Arnar Gunnlaugsson og Óskar Hrafn Þorvaldsson, vallarstjórinn Magnús Valur Böðvarsson, Siggi dúlla og að sjálfsögðu margir fleiri af helstu leikmönnum deildanna taka einnig þátt í auglýsingunni.

Þar má sömuleiðis sjá bræðurna og FH-ingana Viðar og Jón Rúnar Halldórssyni bregða sér í gervi mafíustjóra sem leggja línurnar fyrir þjálfarann Heimi Guðjónsson sem aftur er mættur í Kaplakrika, og Færeyingarnir sem mættir eru úr Betri deildinni í Bestu deildina eiga einnig skemmtilega innkomu, svo nokkuð sé nefnt.

Sjón er sögu ríkari en auglýsinguna má sjá í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×