Fótbolti

Stytta af Messi verður við hlið Maradona og Pele

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi með eftirmynd af HM-bikarnum og við styttu af honum sjálfum.
Lionel Messi með eftirmynd af HM-bikarnum og við styttu af honum sjálfum. AP/Jorge Saenz

Lionel Messi hefur verið hylltur við hvert tækifæri í þessum landsliðsglugga þar sem argentínska landsliðið var að spila sína fyrstu leiki sem heimsmeistari.

Hinn 35 ára gamli Messi náði loksins hinum eftirsótta heimsmeistaratitli í desember síðastliðnum en við það fór argentínska þjóðin hreinlega á hliðina.

Það var gríðarlegur áhugi á vináttuleikjum Argentínu í þessum landsleikjaglugga sem báðir fóru fram í Argentínu.

Æfingasvæði argentínsku landsliðanna var skírt eftir Lionel Andrés Messi og það voru ekki bara landar hans sem voru að heiðra kappann við hvert tækifæri.

Á milli leikjanna heiðraði Knattspyrnusamband Suður-Ameríku líka Messi og setti hann í hóp með tveimur goðsögnum.

Messi var þar viðstaddur frumsýningu á styttu af honum sem verður við hlið Diego Maradona og Pele í CONMEBOL safninu. CONMEBOL er skammstöfun fyrir Knattspyrnusamband Suður-Ameríku.

Messi fékk líka eftirmynd af HM-bikarnum og Finalissima bikarnum sem Argentína vann Ítalíu sumarið fyrir HM en það er uppgjör á milli Suður-Ameríkumeistara og Evrópumeistara.

Argentína vann 2-0 sigur á Panama í fyrri vináttuleiknum þar sem Messi skoraði seinna markið beint úr aukaspyrnu.

Seinni vináttulandsleikurinn er á móti Curacao í dag en það er eyríki í Karíbahafi, undan strönd Venesúela.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×