Enski boltinn

Nagelsmann líklegastur til að taka við Tottenham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Julian Nagelsmann gæti fengið nýtt starf í sumar.
Julian Nagelsmann gæti fengið nýtt starf í sumar. getty/Sven Hoppe

Samkvæmt veðbönkum er Julian Nagelsmann, fyrrverandi knattspyrnustjóri Bayern München, líklegastur til að taka við Tottenham.

Spurs er án stjóra Antonio Conte hætti með liðið í gær. Hann stýrði Spurs í síðasta sinn í 3-3 jafntefli við Southampton um þarsíðustu helgi. Eftir leikinn úthúðaði hann öllu og öllum hjá Tottenham eins og frægt er orðið.

Christian Stellini og Ryan Mason stýra Tottenham út tímabilið en nýr maður tekur svo við liðinu í sumar. Ef marka má veðbanka er Nagelsmann líklegastur til þess. Hann er án starfs eftir að hafa verið sagt upp hjá Bayern í síðustu viku.

Annar á blaði veðbanka er maður sem þekkir vel til hjá Tottenham, nefnilega Mauricio Pochettino sem þjálfaði liðið á árunum 2014-19. Undir hans stjórn komst Spurs í úrslit Meistaradeildar Evrópu 2019.

Meðal annarra sem eru ofarlega á lista veðbanka yfir næsta stjóra Tottenham eru Luis Enrique, fyrrverandi þjálfari spænska landsliðsins og Barcelona, Sergio Conceicao, stjóri Porto, og Thomas Frank, stjóri Brentford. Aðrir sem hafa verið nefndir til sögunnar eru Roberto De Zerbi, stjóri Brighton, og Oliver Glasner, stjóri Frankfurt.

Tottenham er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Everton á mánudaginn eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×